Lokaverkefni 10.bekkinga

Í gær lauk vinnu 10. bekkinga við lokaverkefni. Þetta er viðamikið verkefni og að mörgu að hyggja. Undirbúningur hófst strax í febrúar þegar nemendur fengu kynningu á því um hvað verkefnin snúast og gátu farið að velta fyrir sér hvað það væri sem þeir myndu vilja vinna við þessa síðustu skóladaga.
Nemendur þurftu að finna sér hópfélaga og búa til umsókn fyrir 7. mars og fá hana samþykkta af umsjónarkennurum. Hver hópur fékk tvo til þrjá leiðbeinendur og var það í höndum nemenda að bóka fund með þeim fyrir 16. maí og hafa sjálfir frumkvæði að öllum samskiptum við þá. Hlutverk leiðbeinanda var að benda nemendum á ef einhver hluti verkefnisins var vanræktur, hvetja þá til að fylgja skipulagi og að lokum meta vinnuna í samvinnu við alla kennara á unglingastigi og með tilliti til sjálfsmats og hópamats nemenda.
Vinnan sjálf hófst svo 20. maí. Í verkefninu fólst að gera nákvæmar áætlanir fyrir hvern dag, skrifa saman dagbók daglega þar sem fram kom hvernig verkinu miðaði og hvort breyta þyrfti áætlun. Nemendur áttu að mæta á bókasafn og skrá sig inn á hverjum morgni og finna fundartíma með leiðbeinendum daglega. Að öðru leyti mátti vinnan fara fram hvar sem þeir kusu. Nemendur fengu gátlista til að vinna eftir og vissu því hvað það var sem metið var til lokaeinkunnar. Það var meðal annars, afurðin sjálf, frumkvæði, sjálfstæði, samvinna, skipulag, dagbókin, frumleiki, kynningin á sviðinu, hvernig tekið var á móti gestum á sýningunni o.fl.
Föstudaginn 27. maí áttu nemendur að vera búnir að skila öllum gögnum, undirbúa kynningu á sviði og undirbúa sýningarbásinn sinn.
Mánudaginn 30. maí var svo komið að uppskeruhátíðinni. Nemendur komu á svið og kynntu verkefnin sín og hvöttu áhorfendur til að koma og skoða afurð verkefnisins. Á sýningarbásunum tóku nemendur á móti gestum og sögðu nánar frá verkefnunum sínum.
Verkefnin voru margvísleg og metnaðarfull og höfðu margir hópar byrjað að undirbúa sín verkefni löngu áður en þau voru kynnt enda spenntir eftir að hafa verið gestir á sýningu 10. bekkjar síðasta vor.
Á facebook síðu skólans má nálgast myndir frá uppskeruhátíðinni sem við leyfum að tala sínu máli og óskum þessum flottu krökkum til hamingju með vel unnin störf.
Posted in Fréttir.