Stuðnings- og sérkennsla

Stoðþjónusta

Álfhólsskóli er skóli án aðgreiningar. Í grunnskólalögum er kveðið á um að skólinn skuli haga störfum sínum í sem fyllsta samræmi við eðli hvers nemanda. Sérkennsla í Álfhólsskóla er skipulögð með það markmið í huga að allir nemendur hafi sama rétt til náms. Með sérkennslu mætum við hinum ólíku þörfum nemenda. Farnar eru ýmsar leiðir til þess að ná því marki, t.d. með stuðningskennslu, sérkennslu og öðrum sérúrræðum þar sem leitast er við að koma til móts við þarfir hvers og eins út frá getu og færni.

Skilgreining á sérkennslu

Sérkennsla er stuðningur við nemendur eða nemendahópa sem þarfnast tímabundinnar aðstoðar eða samfellds stuðnings um lengri eða skemmri tíma, jafnvel alla skólagönguna.

Sérkennsla

Í Álfhólsskóla er sérkennsla fyrir nemendur sem þurfa verulega aðstoð við námið. Hér getur verið um sértæka námsörðugleika að ræða (s.s. lesblindu, stærðfræðiblindu og/eða skrifblindu) en einnig gætu þetta verið nemendur með ósértækan vanda sem þurfa tímabundinn stuðning í afmarkaðan tíma til þess að þeim takist að fylgja jafnöldrum sínum eftir. Nemendur sem fá aðstoð í sérkennslu hafa ekki haft tök á að tileinka sér kennsluna sem árgangurinn fær nema að hluta til og geta því fengið aðstoð og kennslu við hæfi. Sérkennarar vinna náið með árgangateymum. Þeir taka þátt í skipulagi og úrvinnslu kennslu með skjólstæðinga sína í huga. Sérkennarar veita þeim nemendum sem þurfa sérstakan stuðning almennt aðstoð, kennslu og verkefni við hæfi. Áríðandi er að þjónusta nemenda í sérkennslu sé í fullu samráði við foreldra og þeir upplýstir um aðlögun námsins.

Við skipulagningu sérkennslunnar er lögð áhersla á fyrirbyggjandi starf og eru því ýmsar athuganir og skimanir (t.d. LOGOS og talnalykillinn) framkvæmdar eftir þörfum í samvinnu við umsjónarkennara hverju sinni og átaksverkefni í kjölfar þeirra eftir þörfum.  Menntamálastofnun hefur einnig þróað skimunar- og stöðupróf í lestri sem kallast Lesferill. Prófin meta lesfimi nemenda, þ.e. leshraða, lestrarnákvæmni, áherslur og hrynjanda í lestri. Prófin eru tekin í 1.-10.bekk í september, janúar og maí ár hvert. Lesskilningsprófið Orðarún er svo lagt fyrir alla nemendur í 3.-8.bekk.

Umsjónarkennarar og sérkennarar vinna námslotur og verkefni saman í Mentor. Nemendur þeirra eru skráðir í sömu lotuna sem er tengd sömu hæfniviðmiðunum í grunninn en verkefnin/námsleiðirnar/matið er ólíkt eftir einstaklingum. Með því móti má einstaklingsmiða námið út frá forsendum hvers og eins.

Ef nemandi í sérkennslu getur ekki með neinu móti fylgt hæfniviðmiðum miðað við aldursstig ber sérkennara að útbúa námslotu/einstaklingsnámskrá fyrir hann, tengja viðeigandi viðmiðum úr skólanámskrá og stjörnumerkja lokamat að vori. Foreldrar þurfa að vera upplýstir um einstaklingsnámskrá og samþykkir stjörnumerktu lokamati.

Stuðningsmiðað nám

Í stuðningsmiðuðu námi er nemendum veittur markviss stuðningur til þess að þeim takist sem fyrst að fylgja jafnöldrum sínum eftir í hefðbundnu námi. Hér er um tímabundna aðstoð að ræða.

Sérúrræði/sérleiðir

Í færni- og þroskamiðuðu námi fá nemendur sérsniðin kennslutilboð og þeim eru skapaðir náms- og kennsluhættir við hæfi. Hver nemandi fær einstaklingsmiðaða námskrá sem er sérsniðin að þörfum hans sem og sérsniðna stundatöflu. Reynt er að mæta námsþörf með því að samþætta bóklegt og verklegt nám og að skapa heildarsamhengi í námstilboðum fyrir hvern og einn. Allir nemendur sem eru í sérúrræði hafa sinn umsjónarhóp sem fastan punkt í skólagöngu sinni.

Stuðningsfulltrúar

Við skólann eru starfandi stuðningsfulltrúar sem eru nemendum sem eiga í sértækum erfiðleikum til aðstoðar. Þeir starfa undir skipulagningu og handleiðslu sérkennslunnar og/eða þeirra kennara sem kenna viðkomandi nemanda

Talkennsla

Dagný Annasdóttir er talkennari skólans. Allir 6 ára nemendur fara í athugun hjá talkennara. Dagný er við fjóra daga í mánuði. Foreldrar/ forráðamenn barns geta einnig sótt um eftir að barn þeirra fari í athugun hjá talkennara.

Námsver fyrir einhverfa

Sérdeildir Álfhólsskóla fyrir einhverfa starfa eftir hugmyndafræði TEACCH sem Dr.Eric Schopler hannaði og setti fram eftir áralangar rannsóknir á bestu kennsluleiðum fyrir nemendur með einhverfu. Fyrstu deildirnar voru starfræktar í Chapel Hill og Raleigh í Norður-Karolínu í Bandaríkjunum. Í dag er unnið eftir TEACCH hugmyndafræði út um allan heim og hefur verið sýnt fram á langtíma árangur af notkun hennar.

Hugmyndafræðin stuðlar að því að leggja grunn að sjálfstæði einstaklingsins, sem hann/hún fær að æfa strax á fyrstu dögum skólagöngunnar. Nemandinn fær sjónrænar vísbendingar sem stuðla að frumkvæði og markvissum æfingum í lausnaleitum.

Í færni- og þroskamiðuðu námi fá nemendur sérsniðin kennslutilboð og þeim eru skapaðir náms- og kennsluhættir við hæfi. Hver nemandi fær einstaklingsmiðaða námsskrá sem er sérsniðin að þörfum hans sem og sérsniðna stundatöflu. Reynt er að mæta námsþörf með því að samþætta bóklegt og verklegt nám og að skapa heildarsamhengi í námstilboðum fyrir hvern og einn. Allir nemendur sem eru í sérúrræði hafa sinn umsjónarbekk sem fastan punkt í skólagöngu sinni.

Meginmarkmið deildanna er að nemendur verði eins sjálfstæðir og ábyrgir fyrir sínu námi og sinni hegðun eins og mögulegt er.

Unnið er að því að virkja sem mest jákvæða þætti, sterkar hliðar og efla þannig jákvæða sjálfsmynd nemendanna.

Námsver

Námsverið er ætlað nemendum sem aðlagast illa hefðbundnu skólaumhverfi vegna erfiðleika af sálfélagslegum toga og þurfa annars konar vinnuumhverfi en almenna kennslustofu. Í Álfhólsskóla er starfrækt námsver á hverju stigi. Umsjónarkennarar námsvera fylgja hverjum hópi fyrir sig og sjá um skipulag, kennslu og samstarf vegna nemenda. Stuðningsfulltrúar vinna í námsverinu undir handleiðslu kennara. Börnum með sálfélagslegan vanda er ýmist kennt samkvæmt einstaklingsnámskrá eða námskrá árganga. Kennarar útbúa námslotur í Mentor í samvinnu við foreldra í þeim tilfellum þar sem um einstaklingsnámskrá er að ræða. Í öðrum tilfellum hafa kennarar aðgang að námslotum árganga og útbúa þá einstaklingsmiðuð verkefni fyrir sína nemendur til þess að meta markmið og hæfniviðmið lotunnar.

Meginmarkmið í starfi námsvers er að:

  • leggja grunn að góðri skólafærni,
  • auka félagsfærni nemenda,
  • þjálfa sjálfstæð vinnubrögð nemenda,
  • nemendur stundi nám á eigin forsendum,
  • efla lestur og lesskilning nemenda.

Hér er vinnuferill vegna óska um að nemandi fái þjónustu í námsveri.

Hér er vinnuferill vegna óska um sérúrræði fyrir nemendur.

Eyðublað vegna umsóknar um nám í námsveri.

Eyðublað fyrir umsókn um námsaðstoð.