Læsisstefna

Álfhólsskóli hefur sett sér skýra og hnitmiðaða læsisstefnu með það að markmiði að nemendur skólans nái marktækum árangri í lestri.

Tilgangur þess að efla læsi er að nemendur geti lesið sér til gagns og ánægju við lok grunnskólanáms. Þeir verði virkir og skapandi málnotendur og fái stuðning til þess á skólagöngu sinni allt frá leikskóla til loka grunnskóla.

Grunnskólar landsins eru bundnir af ákvæðum aðalnámskrár Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Læsisstefna Álfhólsskóla lýsir þeim aðgerðum sem ætlað er að vinna eftir svo allir nemendur nái eins góðum árangri og þeir hafa forsendur til í lestri og að lestrarkennslan verði öllum nemendum gott veganesti þegar þeir ljúka skólagöngu sinni í Álfhólsskóla. Hér má því fyrst og fremst finna hagnýta aðgerðaáætlun og handbók fyrir kennara sem þeir geta stuðst við er þeir skipuleggja kennslu fyrir komandi skólaár í því augnamiði að gera læsiskennsluna betri og skilvirkari. Mikilvægt er að foreldrar séu vel upplýstir og því getur handbókin nýst sem upplýsingahefti ásamt því að vera stuðningur við foreldra í læsisnámi barna þeirra. Lestrarhæfni nær til allra nemenda og er mikilvægt samfélagslegt verkefni.

Meginmarkmið með markvissri stefnu í eflingu læsis er að kennslan sé markviss og skýr jafnt nemendum sem foreldrum.  Góð lestrarfærni er undirstaða fyrir allt nám og því er mikilvægt að vel sé staðið að eftirfylgni við hana alla skólagönguna. Mikilvægt er að skólinn og heimilin taki höndum saman um að svo verði og tekið verði mið af stöðu nem­andans hverju sinni. Heimalestur er mikilvægur í þessu samhengi og þarf hann að eiga sér stað alla skólagönguna, frá 1.-10. bekk a.m.k. fimm daga vikunnar.

Læsisstefnuna sem og fylgiskjöl er hægt að kynna sér í heild sinni hér fyrir neðan.

Læsisstefnu Álfhólsskóla má sjá hér.