Frístund

Starfsáætlun Álfhóls 2023-2024

Frístundarheimilið Álfhóll er í boði fyrir börn í 1. -4. bekk. Álfhóll opnar þegar skóla lýkur kl. 13:20 og er opin til kl. 17:00.

Sími Álfhóls er 441-3800. Símatími forstöðumanns er alla daga milli kl. 09:00 og 10:00. Einnig má senda tölvupóst á netfangið alfholl@kopavogur.is. Í neyðartilfellum má hafa samband í síma 863-6819.

Nöfn Forstöðumanna:

Una Birna Haukdal Ólafsdóttir , Forstöðumaður. Tölvupóstfang: unabirna@kopavogur.is

Andri Þór Helgason aðstoðarforstöðumaður. Tölvupóstfang: andri.helgason@kopavogur.is

Markmið frístundar eru;

  • að bjóða nemendum upp á faglegt og skemmtilegt starf í frítíma þeirra,
  • að börnin stjórni frítíma sínum sjálf í frjálsum leik innan ákveðins ramma,
  • að styrkja börnin félagslega,
  • að stuðla að óformlegri menntun um þætti er varða lífið og tilveruna.

Aðstaða

Hópnum er skipt í tvo hópa eftir aldri, 1.-2.bekk og 3.-4.bekk.

1.-2.bekkur er staðsettur í austurálmu skólans og heimastofan heitir Skessuhorn. Svo hefur frístundin afnot af nokkrum skólastofum.

3.-4.bekkur er með sér aðstöðu í Álfheimum sem er staðsett í Íþróttahúsi HK Digranesi, gengið inn á norðurhlið við hjólabrautina.

Starfssemi

Álhóll opnar þegar kennslu lýkur. 1. bekkur mætir klukkan 13:20 alla daga nema föstudaga,
þá mæta þau 13:30. 2.,3. og 4. bekkur mætir 13:30 alla daga nema föstudaga, þá mæta þau 12:50. 1. og 2. bekkur byrja í síðdegishressingu þar sem reynt er að bjóða uppá fjölbreytt nesti. Á meðan fara 3. og 4. bekkur fyrst í Álfastein þar til 1. og 2. bekkur klára matartímann sinn. Eftir að þau klára síðdegishressingu fara allir út í útiveru og er lengd útiveru metin daglega eftir veðri. Þegar 1. og 2. bekkur koma inn hengja þau af sér og velja sér val sem er í boði á valtöflunni. Á sumum dögum er hópastarf í boði sem þau geta einnig valið að fara í.
3. og 4. bekkur fara í frjálst val, á sumum dögum er einnig hópastarf í boði fyrir þau.

Í Álfhól bjóðum við uppá fjölbreytt og skemmtilegt frístundastarf eftir að skóladegi
lýkur. Lögð er áhersla á að börnin hafi stað til að vaxa og dafna í umhverfi sem einkennist af góðum anda, virðingu, öryggi, umhyggju, lýðræði og sjálfseflingu. Við hvetjum börnin til þess að hafa áhrif á umhverfið og láta í sér heyra með sínar skoðanir og ábendingar.
Frístundaheimilið er staður fyrir börnin þar sem þeim á að líða vel og hafa gaman af. Einnig
er lögð áhersla á að efla félagsfærni barnanna. Við leiðbeinum þeim í samskiptum í gegnum leik og starf. Markmið Álfhóls/Álfasteins er að stuðla að óformlegri menntun um þætti er
varða lífið og tilveruna, styrkja börnin félagslega, bjóða nemendum upp á faglegt og
skemmtilegt starf í frítíma þeirra og kenna börnunum að stjórna frítíma sínum sjálf innan
ákveðins ramma.
Hópastarf og val
Boðið er uppá hópastarf sem haldið er utan um af starfsmönnum Álfhóls. Í boði eru hópar
líkt og fótboltaklúbbur og myndlistaklúbbur og eru fleiri klúbbar eru væntanlegir líkt og
tónlistaklúbbur og mögulega D&D klúbbur. Einnig er kennd skák og kór á tíma frístundar-innar. Rík áhersla er lögð á val og er valtafla fyrir 1. – 2. bekkjar starfið. Á valtöflunni
eru ákveðin viðfangsefni sett upp í upphafi hvers dags og eru þau mismunandi eftir dögum. Hugsunin á bakvið valtöfluna er til þess að hafa yfirsýn með 1.-2. bekk og kenna þeim að dvelja við verkefni sem þau hafa valið í einhverja stund. Á hverjum degi
hafa börnin val um nokkra hluti til að gera yfir daginn. Dæmi um val á töflunni er teikna, fótboltaspil, vinaarmbönd, spil, föndur, útivera, legó o.s.frv. Vikulega dagskráin er svo reglulega brotin upp með skemmtilegum viðburðum eins og til dæmis bíó, íþróttadegi, degi erlends uppruna, teiknimyndasmiðju, vettvangsferðum o.fl. Í 3. – 4. bekk
er ekki valtafla og er lögð meiri áhersla á frjálst val ásamt hópastörfum. Frjálsa valið hjá 3.-4. bekk gefur barninu þann kost á að velja þann stað sem barnið vill óháð valtöflu, líkt og er í félagsmiðstöðvum. Í vetur verður einnig í boði hópastörf fyrir 1.-4. bekk. Þar munu þau skrá sig í ákveðið hópastarf sem þau fara í 1-2x í viku á meðan frístund stendur. Á venjulegum dögum verða viðfangsefnin á óformlegum nótum og börnin geta valið og flakkað á milli viðfangsefna á hálftíma fresti.

Síðsdegiskaffi

Síðdegiskaffi í Álfhól fer fram á bilinu 13:20 til 14:20. Nemendur sem eru í Álfhól á þeim tíma greiða  fyrir hressingu. Lagt er mikið upp úr því að hressingin sé holl og góð en einu sinni í mánuði, eða síðasta föstudag hvers mánaðar, gerum við vel við okkur og bjóðum upp á sætindi og höldum afmæliskaffi fyrir þau börn sem áttu afmæli þann mánuðinn. Þá eru afmælisbörnin lesin upp og í lokin er afmælissöngurinn sunginn.

Heimferðir

Við skráningu barns í Álfhól er merkt inn hvort barnið megi sjálft ganga heim eða hvort það verði sótt. Nauðsynlegt er að virða það sem þið hafið sett fram, ef það þarf að skrá breytingu þarf að senda inn breytingabeiðni á íbúagátt Kópavogsbæjar. Ef til þess kemur að breyta þurfi fyrirkomulagi dag og dag er mikilvægt eða koma skilaboðum til forstöðumanns með símtali á símatíma eða senda tölvupóst, fyrir kl. 12:00. Sé póstur sendur eftir kl. 12:00 er ekki víst að boðin komist til skila. Einnig viljum við biðja foreldra að virða skráðan vistunartíma og bendum einnig á að Álfhóll lokar kl. 17.00.

Þegar börnin eru sótt er afar mikilvægt að finna næsta starfsmann og láta vita svo hægt sé að merkja börnin út.

Skipulagsdagar

Álfhóll er opin alla daga sem grunnskólar eru starfandi. Á skipulags og samráðsdögum eru langir dagar þ.e opið allan daginn frá kl. 08:00 til 17:00. Þó er Álfhóll með tvo starfsdaga, einn fyrir áramót og einn eftir. Skólaárið 2019-2020 eru skipulagsdagar Álfhóls 15.nóvember og 12. mars. Álfhóll er lokaður í vetrarfríum skólans.

Aukin þjónusta

Sumardvöl er í boði fyrir verðandi nemendur 1.bekkjar tvær vikur í ágúst við upphaf skólaárs. Sérstök skráning er í gegnum íbúagátt Kópavogs fyrir þennan tíma og vísast til gjaldskrár hverju sinni.

Jafnframt eru í boði aukadagar um jól, páska og lok skólaárs fyrir nemendur í frístund. Sérstök skráning verður fyrir þessa daga í gegnum íbúagátt Kópavogs og um kostnað vísast til gjaldskrár hverju sinni.​