Starfsáætlun Álfhóls 2022-2023
Frístundarheimilið Álfhóll er í boði fyrir börn í 1. -4. bekk. Álfhóll opnar þegar skóla lýkur kl. 13:20 og er opin til kl. 17:00.
Sími Álfhóls er 441-3800. Símatími forstöðumanns er alla daga milli kl. 09:00 og 10:00. Einnig má senda tölvupóst á netfangið alfholl@kopavogur.is. Í neyðartilfellum má hafa samband í síma 863-6819.
Nöfn Forstöðumanna:
Una Birna Haukdal Ólafsdóttir , Forstöðumaður. Tölvupóstfang: unabirna@kopavogur.is
Andri Þór Helgason aðstoðarforstöðumaður. Tölvupóstfang: andri.helgason@kopavogur.is
Markmið frístundar eru;
- að bjóða nemendum upp á faglegt og skemmtilegt starf í frítíma þeirra,
- að börnin stjórni frítíma sínum sjálf í frjálsum leik innan ákveðins ramma,
- að styrkja börnin félagslega,
- að stuðla að óformlegri menntun um þætti er varða lífið og tilveruna.
Aðstaða
Hópnum er skipt í tvo hópa eftir aldri, 1.-2.bekk og 3.-4.bekk.
1.-2.bekkur er í aðalbyggingu skólans og heimastofan heitir Skessuhorn. Svo hefur frístundin afnot af nokkrum skólastofum.
3.-4.bekkur er með sér aðstöðu í Álfheimum sem er staðsett í Íþróttahúsi HK Digranesi við hjólabrautina.
Starfssemi
Í Álfhól er lögð áhersla á óformlegt nám (reynslunám og útinám), hópastarf, barnalýðræði og fjölgreindir. Við störfum eftir kenningum John Dewey um reynslunám og lýðræði og Howard Gardner um fjölgreindir.
1.-2.bekkur er með heimastofu sem heitir Skessuhorn og þar fer fram frjáls leikur. Þar er verið að innleiða valkerfi þar sem krakkarnir velja sér viðfangsefni og þá eru fleiri skólastofur til afnota. Boðið er upp á fjölbreytt viðfangsefni t.d. Just Dance, Íþróttasalur, föndur, handavinna og margt fleira. Hjá stiganum í skólabyggingunni geta foreldrar alltaf séð dagskrá hvers hóps og séð hvar barnið er statt.
3.-4. bekkur er með sér aðstöðu í Álfheimum. Þar fer ýmist fram skipulagt hópastarf, frjáls leikur og val. Þegar boðið er upp á val geta krakkarnir geta valið á milli ólíkra viðfangsefna frá degi til dags, t.d. fótboltaspil, þythokkí, borðtennis og fleira. Krökkunum er frjálst að flakka á milli viðfangsefna að vild. Dagskráin er reglulega brotin upp með fjölbreyttum viðburðum, t.d. dans, vettvangsferðum o.fl. Dagskráin hverju sinni er sýnileg uppi á töflu svo foreldrar geta séð hvar barnið er statt.
Tómstundir skipa stóran sess í frítíma margra barna og því er afar mikilvægt að samskipti og samvinna Álfhóls-, íþrótta- og tómstundafélaganna í hverfinu séu góð. Íþróttafélögin í Kópavogi bjóða upp á íþróttavagna sem stoppa við alla skóla Kópavogs reglulega yfir daginn. Tímatöflur vagnanna má nálgast á heimasíðum félaganna. Við sendum börnin í vagnana og er afar mikilvægt að foreldrar láti forstöðumenn vita, eigi að senda barnið í rútu. Það er val foreldra að senda börnin í rúturnar en 1. bekkur fær fylgd en önnur börn eru látin vita og þau koma sér sjálf út á stoppustöð.
Síðsdegiskaffi
Síðdegiskaffi í Álfhól fer fram á bilinu 13:20 til 14:00. Nemendur sem eru í Álfhól á þeim tíma greiða 135 krónur á dag fyrir hressingu. Lagt er mikið upp úr því að hressingin sé holl og góð en einu sinni í mánuði, eða síðasta föstudag hvers mánaðar, gerum við vel við okkur og bjóðum upp á sætindi og höldum afmæliskaffi fyrir þau börn sem áttu afmæli þann mánuðinn. Þá eru afmælisbörnin lesin upp og í lokin er afmælissöngurinn sunginn.
Heimferðir
Við skráningu barns í Álfhól er merkt inn hvort barnið megi sjálft ganga heim eða hvort það verði sótt. Nauðsynlegt er að virða það sem þið hafið sett fram, ef það þarf að skrá breytingu þarf að senda inn breytingabeiðni á íbúagátt Kópavogsbæjar. Ef til þess kemur að breyta þurfi fyrirkomulagi dag og dag er mikilvægt eða koma skilaboðum til forstöðumanns með símtali á símatíma eða senda tölvupóst, fyrir kl. 12:00. Sé póstur sendur eftir kl. 12:00 er ekki víst að boðin komist til skila. Einnig viljum við biðja foreldra að virða skráðan vistunartíma og bendum einnig á að Álfhóll lokar kl. 17.00.
Þegar börnin eru sótt er afar mikilvægt að finna næsta starfsmann og láta vita svo hægt sé að merkja börnin út.
Skipulagsdagar
Álfhóll er opin alla daga sem grunnskólar eru starfandi. Á skipulags og samráðsdögum eru langir dagar þ.e opið allan daginn frá kl. 08:00 til 17:00. Þó er Álfhóll með tvo starfsdaga, einn fyrir áramót og einn eftir. Skólaárið 2019-2020 eru skipulagsdagar Álfhóls 12. október og 19. mars. Álfhóll er lokaður í vetrarfríum skólans.
Aukin þjónusta
Sumardvöl er í boði fyrir verðandi nemendur 1.bekkjar tvær vikur í ágúst við upphaf skólaárs. Sérstök skráning er í gegnum íbúagátt Kópavogs fyrir þennan tíma og vísast til gjaldskrár hverju sinni.
Jafnframt eru í boði aukadagar um jól, páska og lok skólaárs fyrir nemendur í frístund. Sérstök skráning verður fyrir þessa daga í gegnum íbúagátt Kópavogs og um kostnað vísast til gjaldskrár hverju sinni.