Kærleikskaffihús í Álfhólsskóla

Kaffihús fullt af kærleika og hátíðleika er starfsrækt núna á aðventunni í Álfhólsskóla. Vinabekkir koma saman og borða vöfflur með rjóma og drekka kakó með.  Lesin er jólasaga og sungnir jólasöngvar.  Mikil ánægja er með kaffihúsið og allir fara með gleði í hjarta inn í jólahátíðina.  Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru á kaffihúsinu í dag.  Hér er ein af sögunum sem lesnar voru á kaffihúsinu.  Sagan heitir Bestu jólin og er eftir Eyrúnu Didziokas, 7.HHR

Bestu jólin

Það var aðfangadagur. Búðargatan var troðfull af fólki. Klukkan var hálfsex og margir á síðustu stundu með jólainnkaupin. Ég hafði ekki keypt neitt. Engar gjafir, ekkert tré, ekkert skraut. Þegar aurarnir eru ekki fleiri en tíu í pyngjunni þinni ertu ekki að eyða peningum í óþarfa hluti. Ég hafði alltaf elskað jólin, fallegu jólaseríurnar í gluggunum, brosandi snjókarlana í görðunum og auðvitað ilminn sem lagði frá öllum húsunum. Ilurinn af heitum kartöflum, steiktu laufabrauði og sósubaðaðri jólasteikinni. Núna var hins vegar enginn snjór, það hafði ekki snjóað allan desember. Það var líka eitthvað öðruvísi við þessi jól. Ég var ekki glaður, ég brosti ekki og ég naut ekki góðu lyktarinnar. Núna virtist lyktin bara yfirþyrmandi og væmin. Í stað gleðinnar var reiði og afbrýðisemi í garð þessa fólks búin að taka sér bólfestu innra með mér. Ég var svo afbrýðisamur, af hverju fengu þau pakkana, matinn og tréð en ekki ég? Af hverju fékk ég engin jól? Af hverju þurfti ég að vera einhver götukrakki búandi með ókunnugum götuunglingum án þess að vita hvort foreldrar mínir væru enn á lífi? Ég ruddi mér leið í gegnum fólksfjöldann á leið heim. Ef það gæti þá kallast heimili. En þegar ég kom að litla greninu okkar í húsasundi á milli tveggja búða ætlaði ég ekki að trúa mínum eigin augum. Þarna sátu vinir mínir og fjölskylda. Þau voru að sjóða súpu, en enga venjulega súpu. Þetta var dásamlega ilmandi kjötsúpa. Full af gómsætu kjöti, gulrótum og rófum. Goggi litli, sem er yngstur aðeins 11 ára, sat með jólahúfu á höfðinu og kallaði til mín: „Gleðileg jól Oliver, gleðileg jól!“ Ég hljóp til þeirra og faðmaði þau öll að mér. Reiðin var löngu runnin af mér og í staðinn var kominn stór vonarneisti sem barðist um í hjarta mér. Þetta voru yndislegustu jól sem ég hafði upplifað. Kjötsúpan var æðisleg, þótt ég vissi að þetta voru bara afgangs kjötbitar sem fólk hafði hent. Við hlóum og sungum og fórum svo öll saman að torginu þar sem stóra bæjartréð stóð uppljómað. Við dönsuðum svo í kringum það langt fram á nótt. Þegar öllu var á botninn hvolft þurfti ég ekkert meira en fjölskyldu mína til að eiga góð jól.

Eyrún Didziokas, 7.HHR

Posted in Fréttir.