Sigursveit Álfhólsskóla í skák.

Skáksveit Álfhólsskóla sigraði

Sigursveit Álfhólsskóla í skák.Sveit Álfhólsskóla vann sigur á gríðarlega spennandi Íslandsmóti barnaskólasveita sem fram fór í Rimaskóla um helgina. Þar með varði skólinn Íslandsmeistaratitil sinn en sveitin vann einnig mótið árið 2012.  Skáksveit Rimaskóla varð í öðru sæti og skáksveit Hraunvallaskóla úr Hafnarfirði tók þriðja sætið.
Sveitir Álfhólsskóla og Rimaskóla höfðu allmikla yfirburði. Eftir fyrri dag mótsins voru sveitirnar jafnar og efstar með 16 vinninga í 20 skákum. Í sjöttu umferð unnu þær báðar 3-1 og í sjöundu og áttundu umferð lögðu þær báðar andstæðinga sína 4-0. Þær voru því hnífjafnar fyrir lokaumferð mótsins og margt benti til þess að þær þyrftu að heyja aukakeppni um titilinn. Til þess kom ekki því Álfhólsskóli vann sveit Ölduselsskóla 4-0 en á sama tíma vann Rimaskóli Melaskóla 3-1. Þar með var ljóst að Álfhólsskóli hafði varið titilinn.  Þessar sveitir höfðu mikla yfirburði. Álfhólsskóli hlaut 31 vinning í 36 skákum, Rimaskóli 30 vinninga og svo voru sjö vinningar í næstu sveitir sem voru Hraunvallaskóli úr Hafnarfirði og Hörðuvallaskóli með 23 vinninga.
Álfhólsskóli mun því taka þátt í Norðurlandamóti barnaskólasveita sem fram fer í Finnlandi í september. Á síðasta Norðurlandamóti sem haldið var í Svíþjóð sl haust lenti sveitin í 2.sæti en sveitin er ákveðin í að gera enn betur núna í haust.
Skáksveit Álfhólsskóla skipuðu:
1.            Dawid Kolka
2.            Felix Steinþórsson
3.            Guðmundur Agnar Bragason
4.            Oddur Þór Unnsteinsson

Skákkennari og liðsstjóri er Lenka Ptácníková.

Posted in Skák.