skaknordurlandamot

Álfhólsskóli í 2 sæti á Norðurlandamóti barnaskólasveita í skák

skaknordurlandamotSveit Álfhólsskóla lenti í 2 sæti á Norðurlandamóti barnaskólasveita í skák sem lauk í Stokkhólmi í dag eftir 2-2 jafntefli gegn A sveit Svía. Álfhólsskóli náði frábærum árangri á mótinu. Liðið vann 4 viðureignir og gerði eitt jafntefli. Þrátt fyrir það lentum við í 2 sæti því A sveit Svía fékk fleiri vinninga en sveitin okkar.

Álfhólsskóli fékk hins vegar flest stig á mótinu eða 9 á móti 8 stigum Svía en í þetta sinn var það heildarfjöldi vinninga sem skar úr um sigurvegara og þar höfðu Svíar vinninginn. Við auðvitað óskum Svíunum til hamingju með sigurinn.

Síðasta umferðin var mjög spennandi en ljóst var fyrir umferðina að viðureignin milli Álfhólsskóla og Svíanna væri hrein úrslitaviðureign. Jafnframt var ljóst að Álfhólskóli þyrfti að vinna 3.5 – 0.5 til að vinna mótið. Fyrstu tveim skákunum lauk með sigri Álfhólsskóla með glæsilegum sigrum Agnars og Róbert Leó og staðan því orðin 2 – 0 fyrir okkur og spennan því í hámarki. Dawid og Felix voru á þeim tímapunkti með vænlegri stöður en síðan sannaðist að kapp er best með forsjá. Þeir vissu báðir að við þyrftum að ná 1.5 vinningum út úr þessum 2 skákum og sóttu e.t.v full fast, sem getur verið hættulegt, og lentu um síðir báðir undir í sínum skákum. Það voru því vonsviknir en jafnframt stoltir strákar sem að lokum urðu að sætta sig við 2 sætið á mótinu og spennufallið mikið.

Lokastaða mótsins varð eftirfarandi:

 

Vinn-ingar

Loka staða

Skóli

Land

Stig

Mälarhöjdens skola

Sweden 1

15½

1

8

Álfhólsskóli

Iceland

13

2

9

Haldum-Hinnerup

Denmark

11½

3

6

Kringsjå Skole

Norway

5

4

The English School

Finland

4

2

Örsundsbroskolan

Sweden 2

4

6

0

 

Sveit Álfhólsskóla stóð sig mjög vel á þessu móti. Sveitin er mun yngri en sveit sigurvegaranna og á mjög vel skilið silfurverðlaunin. Nú tekur við áframhaldandi uppbyggingarstarf hjá Álfhólsskóla enda strákarnir staðráðnir í að vinna sér aftur inn keppnisrétt að ári en þá verður keppt í Finnlandi með það markmið klára þá málið. Það verður aðeins Róbert Leó sem færist upp um flokk en eftir verða Dawid, Felix og Agnar og Oddur sem var varamaður í þessu móti. Við segjum því eins og forsetinn okkar „you aint seen nothing yet“.

Álfhólsskóli þakkar öllum þær góðu kveðjur sem okkur hafa borist meðan á mótinu stóð. Við þökkum einnig þjálfurum liðsins þeim Smára Rafni Teitssyni og Einar Hjalta Jenssyni fyrir frábært og öflugt starf með stráknum.

Við viljum benda á að á næstunni hefjast að nýju skákæfingar fyrir nemendur skólans en nánara fyrirkomulag verður kynnt síðar. Þar gefst öllum áhugasömum nemendum tækifæri til að kynnast skákinni og öllum þeim leyndardómum og skemmtun sem hún býr yfir. Það er þannig markmið Álfhólsskóla að halda áfram að byggja upp skákina innan skólans og þannig laða áhugasama nemendur að þessu þroskandi og skemmtilega áhugamáli. Árangur strákanna okkar sýnir að við höfum svo sannarlega á sterkum grunni að byggja.

Posted in Fréttir.