Samræmdum könnunarprófum aflýst

Ágætu nemendur og foreldrar í 9.bekk Álfhólsskóla

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að aflýsa hefðbundnum samræmdum prófum í ensku og stærðfræði, sem ráðgert var að leggja rafrænt fyrir nemendur í 9. bekk í næstu viku. Þessi ákvörðun byggir fyrst og fremst á hagsmunum nemenda og sjónarmiðum skólasamfélagsins.

Annmarkar voru á rafrænni fyrirlögn prófs í íslensku hinn 8. mars og var prófum í ensku og stærðfræði þá frestað um nokkra daga. Að vel athuguðu máli telur Menntamálastofnun ekki öruggt að rafræn fyrirlögn prófanna muni ganga snurðulaust fyrir sig, enda hafi þjónustuaðili prófakerfisins ekki brugðist við aðstæðum með fullnægjandi hætti.

Nemendum verður hins vegar gefið val um að taka könnunarpróf í viðkomandi greinum á tímabilinu 17. mars – 30. apríl nk. Menntamálastofnun ber að tryggja þá framkvæmd. Skipulag fyrirlagnarinnar skal undirbúin í samráði við skólasamfélagið og miðast við lágmarksröskun á skólastarfi. Þau próf verða tekin á pappír en ekki rafrænt.
Seinni part næstu viku, eða þegar skýrari upplýsingar liggja fyrir um framkvæmdina frá Menntamálastofnun,  mun Álhólsskóli kanna meðal foreldra og nemenda 9.bekkjar hvaða nemendur velja að taka þau próf.

Uppfært 12.mars.

Posted in Fréttir.