Námsmat í Álfhólsskóla

Lögð er áhersla á sívirkt mat á skólastarfinu allt skólaárið. Samkvæmt grunnskólalögum er megintilgangur námsmats að örva nemendur, aðstoða þá við námið og hvetja þá til sjálfsmats. Áhersla er lögð á að draga fram þá þætti í námi nemenda sem þeir hafa náð valdi á en einnig að benda á það sem betur má fara.

Námsmat fer fram þrisvar sinnum yfir skólaárið. Í október er munnlegt mat og viðtöl nemenda og forráðamanna við umsjónarkennara. Í janúar er skriflegt námsmat ásamt viðtölum og í lok skólaárs að vori er nemendum afhent skriflegt námsmat. Námsmatið grundvallast á vinnu nemenda yfir skólaárið og prófum í janúar og maí. Í upphafi nýs skólaárs fundar deildarstjóri hvers stigs með sínum kennurum þar sem farið er yfir hvernig námsmati skuli háttað á stiginu.

Námsmat skólans nær til eftirfarandi þátta:

  • Hvernig nemandanum hefur gengið að öðlast þá þekkingu, kunnáttu, skilning, leikni, viðhorf, vinnubrögð og tjáningarmáta sem að var stefnt.
  • Áhuga nemandans á náminu og líðan.
  • Möguleika nemandans til að þroska hæfileika sína og öðlast meira sjálfstæði í starfi.
  • Virkni nemandans, vilja hans og hæfni til að vinna með öðrum að lausn viðfangsefna.

Þess er enginn kostur að meta námsgengi og framfarir eingöngu með prófum og öðrum formlegum aðferðum. Mörg markmið eru þess eðlis að einungis huglægu mati verður við komið. Niðurstöður námsmats byggjast jöfnum höndum á huglægu mati kennara og á formlegum aðferðum, svo sem prófum og könnunum. Hafa verður hugfast að sum markmið eru þess eðlis að ekki kemur fram fyrr en seinna í lífinu hvort þeim varð náð eða ekki. Þau verða því ekki metin með venjulegu námsmati. Rík áhersla er lögð á að nemendur mæti ásamt forráðamönnum í viðtöl, sem fara fram tvisvar á vetri, í október og febrúar.

Í námsmati Álfhólsskóla er um þrenns konar mat að ræða:

  • Einkunnir gefnar í tölum, frá 1 til 10 eftir árangri á formlegum prófum, skriflegum sem munnlegum.
  • Starfs- eða vinnueinkunnir kennara en í þeim felst mat kennara á námi, vinnubrögðum, ástundum og persónulegum þáttum hjá nemendum.
  • Umsagnir um nemendur sem felast í setningum sem lýsa eiga frekar námi nemenda. Umsagnir eru ýmist útskýringar á prófs- og starfseinkunn eða viðbótarskýringar.

Áherslumunur er á framkvæmd námsmats eftir stigum í skólanum. Í 1.-3. bekk fá nemendur eingöngu umsagnir um námið að undanskildum einkunnum í tölum í lestri. Frá 4. bekk er farið að gefa bæði prófs- og starfseinkunnir í tölum auk umsagna.

Posted in Námsmat.