Lýðræðisfundur á vegum Barnaheilla

Í apríl verður Barnaheill með stóra vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum. Herferðin mun heita #ÉGLOFA. 

Í morgun tóku 4 fulltrúar okkar, þau Arnar Jaki, Emelía, Lilja Lovísa og Patt ásamt Möllu Rós náms- og starfsráðgjafa þátt í samtali á unglinga lýðræðisfundi þar sem samankomin voru fleiri unglingar/ungmenni úr 10. bekk og framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið var að fá fram viðhorf og óskir unglinga varðandi það hvað við getum gert betur til að minnka/útrýma kynferðisofbeldi. Umræður á borðunum snéru m.a. að því hvað foreldrar, skóla- og frístundastarf, stjórnvöld og dómskerfið geta gert betur í þessu mikilvæga málefni. Einnig var rætt um mikilvægi þess að segja frá og um brot á milli ungmenna. 

Nemendur Álfhólsskóla voru til mikillar fyrirmyndar og sögðu öll í lok fundar að þessi fundur hefði verið jákvæð upplifun og mikilvægur. Í allri umræðu um málefni sem snúa að börnum og ungmennum er mikilvægt að gefa röddum þeirra sjálfra hljómgrunn. Öll fengu þau sannarlega tækifæri á þessum fundi til þess að láta sínar raddir heyrast. Fjölmiðlar mættu á svæðið og munu fjalla um þennan fund og vekja athygli á þessari mikilvægu vitundarvakningu. Við í Álfhólsskóla skorum á öll að vera betur vakandi, þekkja rauðu ljósin, hlusta, bregðast við, tilkynna grun og styðja börn sem hafa verið beitt ofbeldi. 

#Álfhólsskóli LOFAR að vinna ötullega að því að efla og styðja við velferð og farsæld allra barnanna í skólanum okkar! Við skorum á öll að taka þátt og #LOFA!


Emelía, Lilja Lovísa, Patt og Arnar Jaki, nemendur úr 10.bekk.

Posted in Fréttir.