Skólahald hafið á ný

Skólahald hófst á ný í morgun í kjölfar þess að verkfalli Eflingar hefur verið frestað. Starfið er þó með breyttum hætti þar sem nú er farið eftir tilmælum almannavarna og landlæknis. Lögð er áhersla á að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sama rými hverju sinni og að nemendur blandist ekki milli hópa. Jafnramt hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir til þess að takmarka sem mest hættu á smiti, t.d. aukin þrif og sótthreinsun á öllum snertiflötum.

Til þess að geta uppfyllt þessi skilyrði er óhjákvæmilegt að skólastarf skerðist að einhverju leyti.

Nemendur í 1.-5.bekk fá hér um bil fulla viðveru í skólanum en þeir mæta og fara á ólíkum tímum og nota ólíka innganga. Þeir eru alla daga í sömu skólastofunni, með sömu nemendum og sömu starfsmönnum. Kennslan er því ekki með hefðbundum hætti en kennarar leggja áherslu á að reyna að brjóta upp daginn með hreyfingu, útiveru, sköpun og leik.

Nemendur í 6.-10.bekk hitta kennara sinn í dag eða á morgun í klukkustund í senn. Umsjónarhópum hefur verið skipt upp í minni hópa sem mæta á ólíkum tímum. Í lok vikunar verður metið hvort þörf sé á frekari staðlotum hjá þessum árgöngum fyrir páska. Nemendur í 6.-10.bekk halda að öðru leyti áfram fjarnámi sínu og eru í góðu rafrænu sambandi við kennara sína.

Mikilvæg minnisatriði á þessum fordæmalausu tímum

  • Mikil vinna hefur farið í að halda stofuhópum aðskildum á skólatíma. Það er áríðandi að það sé ekki blöndun milli hópanna utan skólatíma og mælst er til þess að börn leiki ekki við börn í öðrum stofuhópum eftir skóla. Eins er mikilvægt að nemendur forðist samneyti við nemendur úr öðrum stofuhópum á leið til og frá skóla.
  • Mötuneytið, íþróttahús, sundlaug Kópavogs, list-og verkgreinastofur eru lokaðar.
  • Nemendur í 1.-5.bekk þurfa að koma með nesti sem dugir þeim allan daginn. Þeir borða nestið í skólastofunni og þurfa því að koma með áhöld að heiman.
  • Nemendur þurfa að vera með merktan vatnsbrúsa. Gott er að fylla á brúsann áður en nemendur mæta í skólann ef hægt er.
  • Foreldrar mega ekki koma inn í skólann. Ef þeir fylgja börnunum í skólann þurfa þeir að kveðja við innganginn. Þetta gildir líka þegar börnin eru sótt á daginn.
  • Það er áríðandi að fylgja tilmælum um hvaða inngang nemendur eiga að nota.
  • Stundvísi er afar mikilvæg, nemendur eiga ekki að mæta of snemma né of seint til þess að forðast að stofuhópar skarist við innganginn.

Nemendur í 6.-10.bekk eru að sinna fjarnámi sínu af krafti þessa dagana og vinna meðal annars að fjölbreyttum ritunarverkefnum í íslensku. Hér að neðan má lesa ritun eftir Jóhann Ísak Ingimundarson í 9.bekk.

Við erum öll almannavarnir

Posted in Fréttir.