Forvarnardagurinn er haldinn í fimmtánda skipti í dag og var áætlað að finna með ýmis forvarnarverkefni í 9.bekk í dag. Sú vinna frestast til betri tíma í þetta skiptið.
Í ár beinir stýrihópur Forvarnardagsins sjónum að mikilli notkun orkudrykkja en kannanir hafa leitt í ljós að 34% nemenda 10.bekk drekk einn eða fleiri orkudrykki daglega. Þá drekka 9% drengja og 7% stúlkna tvo eða fleiri orkudrykki daglega. Nýleg könnun frá Rannsóknum og greiningu sýnir að að 44% ungmenna í 9. bekk og 54% ungmenna í 10. bekk fá ekki nægan svefn og þeir sem drekka fleiri orkudrykki eru líklegri en aðrir til að sofa minna. Í efstu bekkjum grunnskóla sýna niðurstöður að 74% þeirra sem drekka tvo eða fleiri orkudrykki á dag fá ekki nægan nætursvefn (Rannsóknir og greining, Ungt fólk 2020).
Í dag, á Forvarnardeginum sjálfum, birtir Matvælastofnun skýrslu um heilsufarslega áhættu vegna neyslu íslenskra ungmenna í 8. – 10. bekk á koffeini í drykkjarvörum. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að neysla íslenskra ungmenna í 8. – 10. bekk á orkudrykkjum sem innihalda koffín er með því mesta sem þekkist í Evrópu. Það er því afar mikilvægt að við sem samfélag bregðumst við þessari stöðu. Á vefsíðu embættis landlæknis má finna fróðlegar upplýsingar um áhrif orkudrykkja á líkamann. Við hvetjum foreldra og forráðmenn til að kynna sér þetta efni vel og taka umræðuna með börnum sínum og ungmennum.
Nú á þessum undarlegu og krefjandi tímum megum við ekki láta deigan síga þegar kemur að forvörnum. Mikilvægt er að hafa í huga að börn og unglingar eru viðkvæmari fyrir áhrifum koffíns en fullorðnir.