Nemendur í 10. bekk Álfhólsskóla voru útskrifaðir 6. júní síðastliðinn. Því miður var að þessu sinni ekki hægt að bjóða foreldrum að vera viðstaddir útskriftina, þar sem ekki var hægt að tryggja öllum þeim sem þess óskuðu 2ja metra fjarlægðarmörk. Athöfninni var þess í stað streymt á veraldarvefnum. Að henni lokinni voru nemendur beðnir um að fara út á skólalóð í myndatöku. Þegar hópurinn kom út stóðu foreldrar/forráðamenn heiðursvörð og klöppuðu fyrir útskriftarhópnum. Þetta var ákaflega áhrifamikil og falleg stund. Því næst fengu nemendur að eiga notalega stund saman inni í sal skólans og gæða sér á snakki og súkkulaðiköku. Hún Berglaug okkar hjá Pegasus tók myndir á útskriftinni og munum við deila þeim þegar hún hefur lokið við myndvinnslu.
Skólaslit Álfhólsskóla fóru fram 8. júní á sal skólans bæði í Hjalla og Digranesi. Skólaslitin voru með fremur óhefðbundu sniði að þessu sinni en þau voru án gesta. Skólastjóri flutti skólaslitaræðu og hvatti nemnendur til þess að vera duglegir að lesa í sumar. Því næst áttu nemendur stutta notalega stund með umsjónarkennara í heimastofu þar sem þeir fengu afhend vitnisburðarblöð.
Það var svo einmitt á þessum degi, 8. júní, fyrir 10 árum síðan sem Álfhólsskóli fékk nafn sitt við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu í Digranesi. Skólinn á því 10 ára afmæli í dag!
Við þökkum fyrir ánægjulegar stundir og samstarf á liðnum vetri og óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars!
Skólaslit á miðstigi
Skólaslit á unglingastigi
Skólaslit á yngsta stigi