Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum miðvikudaginn 15. maí. Alls bárust 30 tilnefningar um 29 verkefni til menntaráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.
Teymi 6.bekkjar í Álfhólsskóla – Daðey Arnborg Sigþórsdóttir, Ingibjörg Ásta Tómasdóttir, Margrét Ásdís Björnsdóttir og Monika Suchecka hlutu viðurkenningu fyrir verkefnið Við erum glöð í geði þegar við erum með. Verkefnið hefur það markmið að breyta kennsluháttum með það fyrir augum að allir nemendur fái notið sín og séu fullgildir þátttakendur þ.e. að skipulag kennslu henti fjölbreyttum hópi nemenda með mismunandi þarfir og þannig er dregið úr áhrifum jaðarsetningar nemenda. Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum í öllu starfi.