Það gleður okkur að tilkynna að nemandi okkar í Álfhólsskóla, Lilja Rut Halldórsdóttir, í 6.bekk, var hlutskörpust á miðstigi i vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2018. Alls bárust Menntamálastofnun 900 vísubotnar víðsvegar af landinu og þar af 262 frá miðstigi.
Fulltrúi frá Menntamálastofnun kom til okkar í gær og afhenti Lilju Rut viðurkenningarskjal og bókaverðlaun. Vísnasamkeppnin er í samstarfi við KrakkaRúv og verður henni gerð skil í Krakkafréttum.
Einnig erum við mjög stolt af því að Menntamálastofnun hefur óskað eftir því að fá að birta nokkra vísubotna eftir fleiri nemendur frá okkur sem er vissulega mikill heiður.
Hér eru botnarnir sem um ræðir og höfundar þeirra:
Óskalista enn á ný
ætla ég að gera.
Ljóðabók mig langar í,
ljúf á hún að vera.
Lilja Rut Halldórsdóttir 6. SÓ (vinningshafi á miðstigi)
Margt er gott að glíma við,
gaman er að lita.
Ég hef góðan vinnufrið,
það er gott að vita.
Júlía Heiðrós Halldórsdóttir, 4. KP
Snemma ég á fætur fer
fletti mínum síma.
Ætla líka´ að leika mér
lengi við að ríma.
María Elísabet Halldórsdóttir, 8. ÞÁ
Snemma ég á fætur fer
fletti mínum síma.
Þolinmæðin á þrotum er,
þarf að fara í tíma.
Eyrún Didziokas, 10. SÞÞ
Meðan kvöldin líða löng
les ég mínar bækur.
Heyri fagran sálmasöng
sumarblíðar nætur.
Eyrún Didziokas, 10. SÞÞ