Vinnum saman

Í Álfhólsskóla eru kennarar að vinna með þróunarverkefnið „Vinnum saman“ á mið- og unglingastigi.

Nemendur á miðstigi vinna saman í tvær kennslustundir á viku að þemaverkefnum en nemendur á unglingastigi vinna hálfan dag í senn í nokkur skipti yfir skólaárið. Nemendur úr öllum árgöngum viðkomandi stigs blandast saman í hópum í þessum tímum. Lögð er áhersla á samþættingu námsgreina og samkennslu á þessum tíma og leitast eftir því að verkefnið skilji eftir sig einhverja afurð. Nemendur vinna að hæfniviðmiðum undir sama viðfangsefninu en á ólíkan hátt út frá eigin forsendum og áhuga. Þetta gerir það að verkum að afurð, verkefni og kennsluaðferðir sömu vinnustofunnar ættu ekki endilega að vera þær sömu í ólíkum hópum þótt viðfangsefnið eða þemað sé það sama. Verkefnið styður einnig við lykilhæfni nemenda en í vinnustofunum verður lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að vinna í hópi með ólíkum einstaklingum, kynna verkefni sín fyrir öðrum með ólíkum miðlum, velja sér námsaðferðir og verkefni, skipuleggja nám sitt og verkefni, sýna frumkvæði, taka leiðsögn og gagnrýni á uppbyggilegan hátt og meta eigin verkefni. Með þessu móti má koma til móts við kröfur aðalnámskrár um að efla alhliða hæfni nemenda auk þess sem aðferðin gerir kennurum frekar kleift að einstaklingsmiða verkefni

Í dag var fyrsti Vinnum saman dagur skólaársins á unglingastigi. Nemendur unnu í litlum hópum þvert á árganga með íslenskt dægurlag eftir íslenskan höfund. Þeir greindu ljóðið, texta og innihald, fjölluðu um höfunda, flytjendur o.fl. Í lok vinnustofunnar voru hóparnir svo með kynningu á verkefninu sínu fyrir hina.

Vinnustofan gekk mjög vel og vakti mikla lukku meðal nemenda og kennara.

Posted in Fréttir.