112 dagurinn

Frá árinu 2005 hefur 112-dagurinn verið haldinn þann 11. febrúar ár hvert.  Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og starfsemi aðila sem því tengjast. Að deginum standa Neyðarlínan ásamt fjölda félagasamtaka og stofnana, sem koma að almannavörnum, neyðarþjónustu og barnavernd.

Með bréfi þessu vill ráðuneytið vekja athygli skóla, skólastjórnenda, kennara og nemenda á 112-deginum og mikilvægi þess að hugað sé að öryggi og velferð nemenda auk þess að hvetja til þátttöku í deginum eftir því sem tök eru á.

Í ár verður sjónum sérstaklega beint að börnum og ungmennum, öryggi þeirra og velferð. Markmiðið er annars vegar að vekja athygli á því víðtæka öryggis- og velferðarkerfi sem börn og ungmenni hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið 112. Hins vegar vilja skipuleggjendur benda á mikilvægi þess að börn og ungmenni stuðli að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þekkingu á neyðarnúmerinu, skyndihjálp og slysavörnum.  

Þeir sem standa að verkefninu vilja gjarna heimsækja skóla þennan dag og eru skólastjórnendur hvattir til að taka slíkum erindum vel.  Skólastjórnendur geta einnig snúið sér til viðbragðsaðila (til dæmis slökkviliðs, lögreglu, björgunarsveita eða Rauða krossins) á sínu svæði, óski þeir eftir fræðsluefni eða heimsóknum til að ræða um daginn, markmið og tilgang hans, og minna á neyðarnúmerið, einn-einn-tveir. Sérstök athygli er vakin á að neyðarnúmerið er einnig það númer, sem fólk er hvatt til að hringja í, ef ná þarf sambandi við barnaverndaryfirvöld vegna barna eða ungmenna í vanda. Því má benda á þann möguleika að óska eftir heimsókn frá fulltrúa barnaverndaryfirvalda á viðkomandi stað.

Ráðuneytið vill með bréfi þessu einnig minna á nýlega útgefnar rafrænar handbækur um velferð og öryggi nemenda í leik- og grunnskólum. Unnt er að nálgast þær á
heimasíðu ráðuneytisins en einnig á heimasíðu Námsgagnastofnunar sem falið hefur verið umsjón með vistun og uppfærslu handbókanna.

Með góðri kveðju,
Illugi Gunnarsson

Posted in Fréttir.