Læsisstefna Álfhólsskóla

Inngangur 

Grunnskólar landsins eru bundnir af ákvæðum aðalnámskrár Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og ekki ástæða til að endurtaka áherslur og viðfangsefni hennar hér. Læsisstefna Álfhólsskóla lýsir þeim aðgerðum sem ætlað er að vinna eftir og þeim sem unnið hefur verið að s.l. tvö ár. Hér má því fyrst og fremst finna hagnýta aðgerðaáætlun og handbók fyrir kennara sem þeir geta stuðst við er þeir skipuleggja kennslu fyrir komandi skólaár í því augnamiði að gera læsiskennsluna betri og skilvirkari. Mikilvægt er að foreldrar séu vel upplýstir og því getur handbókin nýst sem upplýsingahefti ásamt því að vera stuðningur við foreldra í læsisnámi barna þeirra. Lestrarhæfni nær til allra nemenda og er mikilvægt samfélagslegt verkefni.

Tilgangur þess að efla læsi er að nemendur geti lesið sér til gagns og ánægju við lok grunnskólanáms. Þeir verði virkir og skapandi málnotendur og fái stuðning til þess á skólagöngu sinni allt frá leikskóla til loka grunnskóla.
Ein meginstoð læsisstefnunnar er snemmtæk íhlutun en með því að aðstoða og efla nemendur á fyrstu stigum læsisnáms er hægt að koma í veg fyrir eða draga úr miklum námserfiðleikum og neikvæðri upplifun af skólagöngu seinna meir. Frávik í lestri geta haft afgerandi áhrif á hegðun, líðan og námsframvindu nemenda. Því er mikilvægt að veita þeim sem standa höllum fæti sérstakan stuðning í lestri. Í læsisstefnu Álfhólsskóla eru sett viðmið um hvenær og hvernig grípa þurfi inn í og veita viðeigandi aðstoð og leiðsögn. Slíkt felur í sér að margvísleg ábyrgð er lögð á allt skólasamfélagið, starfsfólk skóla, foreldra og sveitarfélagið, að stutt sé við nemendur þannig að markmið megi nást í lestri.
Það er rétt að benda á að allir kennarar Álfhólsskóla bera ábyrgð á læsisnámi nemenda. Læsi er vítt hugtak og varðar ekki aðeins móðurmálskennslu heldur einnig að nemendur læri ný hugtök og öðlist ríkari orðaforða í öllum námsgreinum. Mikilvægt er að nemendur fái ítarleg kynni af fjölbreyttum möguleikum íslenskunnar í öllum námsgreinum með viðeigandi kennslu og að þeim gefist margvísleg tækifæri til að undirbúa og bæta lestrarhæfni sína í margs konar tjáningu.
Meginmarkmið með markvissri stefnu í eflingu læsis er að kennslan sé markviss og skýr jafnt nemendum sem foreldrum. Góð lestrarfærni er undirstaða fyrir allt nám og því er mikilvægt að vel sé staðið að eftirfylgni við hana alla skólagönguna. Mikilvægt er að skólinn og heimilin taki höndum saman um að svo verði og tekið verði mið af stöðu nemandans hverju sinni. Heimalestur er mikilvægur í þessu samhengi og þarf hann að eiga sér stað alla skólagönguna, frá 1.-10. bekk a.m.k. fimm daga vikunnar.
Einn þáttur í þessari markvissu stefnu er að unnin hafa verið námsmarkmið í lestri fyrir alla árganga þar sem kemur fram til hvers er ætlast í lestrarferlinu hjá hverjum og einum nemenda. Þar kemur einnig fram hver hraðamarkmiðin eru jafnt í raddlestri sem og hljóðlestri.
Það er ekki sjálfgefið að nemendur hafi góðan skilning á texta þó þeir lesi hratt og mikið. Góður lesskilningur þróast ekki af sjálfu sér, hann þarf að kenna og brýnt er að kennarar átti sig á að ein forsenda þess að nemendur verði læsir er markviss vinna með lesskilning. Það er mikilvægt að byrja strax að kenna fjölbreyttar lesskilningsaðferðir sem efla jafnt orðaforða, málskilning, ályktunarhæfni, nýtingu bakgrunnsþekkingar, námsvitund og allar þær aðferðir sem efla lesskilning frá upphafi skólagöngunnar.  

Hér er læsisstefna skólans í fullri lengd.  

Posted in Skólinn.