Í skólabrag felst allt það sem snýr að samskiptum og skólamenningu og tekur til skólasamfélagsins í heild sinni, þ.e. starfsfólks, foreldra og nemenda. Skólabragur endurspeglar viðmið, markmið og gildi í samskiptum, námi og kennsluháttum og stjórnun skólans. Það má segja að hann standi fyrir skráðar og óskráðar reglur skólans. Rannsóknir hafa sýnt fram á að góður skólabragur er mikilvægur liður í forvarnastarfi skóla (T.d. Kramer II, Hodges og Watson, 2013; National School Climate Center, 2012; Skolverket: RAPPORT 353, 2011).
Orsakir eineltis hafa fram til þessa verið ranglega tengdar við illsku, árásargirni og reiði gerenda annars vegar og svo veikleika og viðkvæmni þolenda hins vegar. Nýjar rannsóknir sýna að þessi einkenni, hegðun og líðan þolenda og gerenda séu aftur á móti afleiðing fremur en orsök. Allir geta verið þolendur, gerendur, áhorfendur eða viðhlæjendur í eineltismáli, óháð persóneinkennum. Einelti er menningarlegt- og samfélagslegt vandamál fremur en vandamál einstaklinga, það þrífst í þeirri menningu þar sem það fær að lifa og byggir á óheilbrigðum félagslegum tengslum, gildum og samskiptamynstri hópa. Í eineltismálum eru í raun allir þolendur. Kvíði, skólaleiði og einmannleiki eru einkennandi fyrir hópa þar sem einelti fær að þrífast. Þessar neikvæðu tilfinningar koma ekki einungis fram hjá nemendum sem eru viðriðnir eineltið sjálft heldur hjá flestum nemendum í hópnum (Hansen, 2016; Eriksson, Lindberg og Daneback, 2002; Schott og Sondergaard, 2014).
Orsakir eineltis má því rekja til þeirrar menningar sem ríkir í hópnum en ekki endilega einstaklinganna í hópnum sem slíkra. Einelti getur þróast í samfélagi sem svar við þörf einstaklinga til þess að finna sameiginlegan grundvöll og vera hluti af hópnum.Viðkomandi hópur myndar þannig samfélag í gegnum eineltið, jafnvel þótt einhver/einhverjir verði í kjölfarið útilokaðir frá viðkomandi samfélagi (Hansen, Henningsen og Kofoed, 2014; Eriksson, Lindberg og Daneback, 2002; Schott og Sondergaard, 2014; Hansen, Henningsen og Kofoed, 2014).
Rannsóknir sýna að vinna með allt skólasamfélagið í heild sinni (e. whole school approach) reynist árangursríkasta leiðin til þess að takast á við og koma í veg fyrir einelti. Aðgerðir gegn einelti þurfa því að beinast að skólanum sem samfélagi fremur en að einstökum börnum. Mikilvægt að vinna með allan hópinn og skapa jákvæða skólamenningu og liðsheild þar sem allir upplifa að þeir séu mikilvægur hluti af hópnum, eigi sér hlutverk og tilgang. Mikilvægt er að gera skólann og námið skemmtilegt með fjölbreyttum kennsluháttum (skólaleiði), efla núvitund, sjálfsmynd og seiglu (kvíði), styrkja vináttu og traust (einmanaleiki) (Hansen, Henningsen og Kofoed, 2014; Eriksson, Lindberg og Daneback, 2002; Schott og Sondergaard, 2014; Hansen, Henningsen og Kofoed, 2014).
Í Álfhólsskóla vinnum við eftir skólamenningaráætlun, Öll sem eitt, Áætlunin var tekin saman af Sigrúnu Erlu Ólafsdóttur með aðstoð Önnu Pálu Gísladóttur og Elísabetar Jónsdóttur. Skólamenningaráætlun byggir á ofangreindum rannsóknum og tekur til alls skólasamfélagsins. Hún birtist og kemur fram í öllum hliðum skólastarfsins. Í grunninn snýst hún um það að við sem lærdómssamfélag erum öll að vinna að sameiginlegum markmiðum – Öll sem eitt. Skólamenningaráætlun er leiðarvísir um leiðir til þess að ná þessum sameiginlegu markmiðum með því að efla jákvæða skólamenningu og skólabrag. Í viðauka hennar má svo m.a. finna viðbragðsáætlun vegna óviðunandi hegðunar og/eða brotum á skólareglum, aðgerðaráætlun um ofbeldi (þ.á.m. einelti) o.fl.
Hér má finna skólamenningaráætlun Öll sem eitt í heild sinni.
Jákvæður skólabragur einkennist af sköpun, örvun í námi, trausti, þátttöku, áhrifum og ábyrgð auk þess sem hann veitir forvarnir gegn einelti og styrkir félagsleg tengsl á milli einstaklinga (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011; Skolverket, 2011). Góður skólabragur er vegferð ekki áfangastaður og nauðsynlegt að vinna að honum markvisst, m.a. með bekkjarfundum, teymiskennslu, hópefli, vinaliðaverkefni, leikjum, klípusögum, markvissri lífsleiknikennslu o.fl. (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011; National School Climate Council, 2007; Margrét Héðinsdóttir, Fanný Gunnarsdóttir og Erla Kristjánsdóttir, 2013).
Starfsfólk skólans gegnir veigamiklu hlutverki í að skapa jákvæðan skólabrag og er mikilvægt að þessir aðilar séu fyrirmyndir í verki og orðum hvað varðar góð samskipti, samvinnu og viðhorf (National School Climate Council, 2007; Margrét Héðinsdóttir o.fl., 2013). Hvernig nemendur upplifa sig í samfélagi með öðrum hefur afgerandi áhrif á hvernig þeir upplifa sjálfa sig sem einstaklinga. Það er í höndum starfsfólks, sér í lagi kennara, að skapa aðstæður þar sem nemendur finna fyrir öryggi og vellíðan. Það eflir jákvæða upplifun nemenda af skólanum sínum og samfélaginu sem þar þrífst (Morris, 2012).
Liðir ÖSE í að efla JÁKVÆÐAN SKÓLABRAG eru:
- Gott samstarf heimilis og skóla.
- Lýðræði nemenda.
- Styrking lærdómssamfélagsins.
- Góð liðsheild og samvinna.
- Fjölbreyttir kennsluhættir.
- Markviss lífsleiknikennsla með áherslu á gildi, virðingu, samskipti, sjálfsmynd og seiglu.
- Öflugt frístundar- og félagsstarf.
- Góð gæsla og öryggi nemenda tryggt.
Á yngsta stigi er jafnframt unnið með Vináttu – Fri for mobberi, sem er forvarnarverkefni um jákvæðan skólabrag. Vinátta fellur vel að ÖSE áætlun skólans en líkt og ÖSE áætlunin er verkefnið byggt á rannsóknum um einelti og þeirri sýn að einelti sé menningarlegt, samskiptalegt og félagslegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi og því lögð áherslu á að vinna með hópinn sem heild og að byggja upp góðan skólabrag og skólamenningu.
Vinátta byggir á ákveðinni hugmyndafræði og eftirfarandi gildum:
Umburðarlyndi; Að viðurkenna og samþykkja margbreytileika hópsins og koma fram við hvert annað sem jafningja. Að sjá margbreytileikann sem styrkleika, bæði fyrir hvert barn og hópinn í heild.
Virðing; Að bera virðingu fyrir hverjum og einum einstaklingi eins og hann er og meta margbreytileikann í hópnum. Að vera góður félagi allra.
Umhyggja; Að sýna hverju barni áhuga, athygli, umhyggju, samkennd, samlíðan og hjálpsemi, jafnaldra sem yngra barni.
Hugrekki; Að börn og fullorðnir hafi hugrekki til að segja frá ef þeir sjá aðra beitta órétti og börn þjálfist í að setja sér sín eigin mörk. Að vera góður félagi sem bregst við órétti.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa að Vináttu og nánar má lesa um verkefnið hér.
Einn liður í því að efla jákvæða skólamenningu er að leitast eftir röddum nemenda og efla þannig lýðræðislega samskiptahætti.
Nemendur eru tilnefndir í fulltrúaráð Öll sem eitt að vori til eins árs í senn í 2.-10.bekk. Umsjónarkennarar velja fulltrúa í 2.-5. bekk. Í 6.-10.bekk geta nemendur bæði tilnefnt sjálfa sig og aðra nafnlaust. Allir sem hljóta tilnefningu fá svo tækifæri til þess að skila inn greinagerð um það hvað þeir vilja fá út úr fulltrúastarfinu og hvers vegna þeir telji að þeir eigi heima í ráðinu. Valdir eru 4-6 fulltrúar í hverjum árgangi. Lögð er áhersla á að fulltrúarnir séu drífandi leiðtogar sem líða ekki einelti eða óæskilega hegðun og þori að mótmæla því. Þeir skulu sýna gott fordæmi og umgangast aðra nemendur og starfsfólk af virðingu og umburðarlyndi. ÖSE fulltrúar eru tenging á milli starfsfólks og nemenda. Þeir leita til kennara og námsráðgjafa ef minnsti grunur um einelti eða vanlíðan annars nemanda vaknar. Fulltrúarnir vinna með gildi mánaða og hjálpa umsjónarkennurum í gildisvinnu með bekknum. Þrír kennarar úr stýrihópnum, einn af hverju stigi, boða til fundar a.m.k. einu sinni í mánuði þar sem fjallað er um samskipti og líðan nemenda, gildi mánaðarins o.fl. Umsjónarkennarar og skólastjórnendur fá svo samantekt af efni fundanna en ÖSE fulltrúarnir geta síðan miðlað því sem fram fer á fundum inn á bekkjarfundi. Fulltrúar hittast oftar ef þörf krefur og nota Bekkjarrými (e. Google Classroom). Lögð er áhersla á virkni og mikilvægi fulltrúaráðs og hljóta nemendur í ráðinu viðurkenningu fyrir félagsstörf uppfylli þeir vinnuskilyrði ráðsins og sinna verkefnum þess af alúð
Í fulltrúaráði ÖSE á unglingastigi eru þrír til fjórir nemendur í hverjum árgangi sem sitja einnig í nemendaráði. Nemendaráð Álfhólsskóla vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðararmálum nemenda. Nemendaráð er ráðgefandi í stjórnun skólans og tveir fulltrúar þess eru jafnframt í skólaráði. Seta í nemendaráði fer inn í stundatöflu nemenda sem valgrein. Nemendaráð hittist einu sinni í viku í klukkutíma í senn, ásamt kennara, og birtir fundargerðir sínar á heimasíðu skólans.