Hér er forvarnaráætlun Álfhólsskóla að finna, áætlun sem ætlað er að vera leiðarvísir í öllu okkar starfi. Forvarnaráætlun er liður í öllu skólastarfi sem miðar að því að nemendur verði besta útgáfan af sjálfum sér, þeir öðlist seiglu og þá hæfni sem gerir þeim kleift að lifa og starfa í nútímasamfélagi. Í forvarnaráætlun Álfhólsskóla eru heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna höfð að leiðarljósi, (sjá áhersluþætti Kópavogs við innleiðingu heimsmarkmiða hér: https://www.kopavogur.is/static/files/Stefnur/stefnumotun_heimsmarkmid.pdf).
Álfhólsskóli hefur þrjú megingildi að leiðarljósi: Menntun – Sjálfstæði – Ánægja
Markmiðið er að þessi megingildi þessi endurspeglist í öllu starfi skólans. Lögð er áhersla á gagnkvæma virðingu og jákvæð samskipti og að hver einstaklingur efli sterka og heilbrigða sjálfsmynd sem og góðan félagsþroska.
Til að byrja með verður í áætluninni greint frá forvörnum í samhengi við aðalnámskrá grunnskóla. Því næst verður fjallað almennt um forvarnir og ávinning þeirra í skólastarfi. Að lokum er farið yfir þá efnisþætti sem Álfhólsskóli leggur áherslu á í forvörnum. Sérstök verkáætlun þar sem farið er sérstaklega yfir hvernig unnið er með hvern efnisþátt á hverju aldurstigi skólans, viðfangsefni, markmið, leiðir og hjálpargögn í kennslu er áætlun ætluð þeim sem að kennslunni koma og því verður ekki farið yfir þá áætlun í þessari forvarnaráætlun.
Með forvörnum er átt við aðgerðir sem hafa það að markmiði að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á vanda vegna hegðunar eða líðan. Þær beinast að atferli, ákvörðunum og aðstæðum. Forvarnir í skólastarfi eru hluti menntunar- og kennslufræðilegrar ábyrgðar skóla. Forvarnarfræðsla er flókin að því leyti að hún snýst ekki aðeins um að tileinka sér nýja þekkingu heldur líka um viðhorf og að tileinka sér ákveðinn lífsstíl. Því má segja að forvarnarstarf snúist um persónuleikamótun í víðtækasta skilningi og að einstaklingar velji sér lífsmáta sem taki mið af heilbrigði og velferð.
Rannsóknir sýna að árangursríkustu forvarnirnar fela í sér að styrkja börn og ungmenni og styðja við bakið á þeim við að taka heilbrigðar ákvarðanir varðandi líf sitt. Það má gera með því að hlúa að samskiptaþroska þeirra, byggja upp seiglu, sjálfsmynd og sjálfstraust, efla lausnamiðaða hugsun, tilfinningalæsi og kenna þeim markvissar leiðir til að takast á við erfiðar tilfinningar eins og reiði, kvíða og depurð (Gerrard ofl., 1996; Tobler og Stratton, 1997; Farrell og Barrett, 2007).
Heimilið og fjölskyldan eru vissulega mikilvæg þegar að þessu kemur, en rannsóknir sýna að skólinn er ekki síður mikilvægur verndandi þáttur í lífi nemenda og reynist jafnvel lífsnauðsynlegur í tilfellum þar sem aðstæður heima fyrir eru erfiðar. Enda er skólinn einn stærsti vettvangurinn í lífi nemenda sinna og hefur tækifæri til gífurlegra áhrifa (Zimmerman og Arunkumar, 1994; Werner og Smith, 2001).
Hér má nálgast forvarnaráætlun Álfhólsskóla í heild sinni.