Aðgerðaráætlunin “Saman í sátt” pdf. skjal
-Leiðir til að taka á aga-samskiptavandamálum og einelti-
Aðgerðaráætlunin “Saman í sátt” er þróunarverkefni sem hófst í Digranesskóla skólaárið 2003-2004. Hún byggir á bókinni “Saman í sátt” sem Námsgagnastofnun gaf út 2001. Þá bók þýddu og staðfærðu Elín Einarsdóttir og Guðmundur Ingi Leifsson úr norsku. Hún er eftir dr.Erling Roland og dr.Elaine Munthe. Þau eru þekktir sérfræðingar á sviði eineltis í Noregi og hafa samið aðgerðaráætlanir fyrir grunn-og framhaldsskóla í Noregi til þess að taka á einelti og agamálum. Þessi áætlun heitir Zero og hefur fengið viðurkenningu frá norska Menntamálaráðuneytinu. Dr. Erling Roland var á tímabili náinn samstarfsmaður Dan Olweusar sem er þekktur hér á landi fyrir eineltisáætlanir sínar.
Elín Einarsdóttir fékk sérstaka handleiðslu frá dr. Erling Roland í “Senter for adferdsforskning” sem er deild við háskólann í Stavanger til þess að aðlaga “Zero” að íslenskum skólum. Í samvinnu við allt starfsfólk skólans varð síðan aðgerðaráætlunin “Saman í sátt “ til og á meðan á því starfi stóð fékk Digranesskóli úthlutað úr Þróunarsjóði grunnskóla.
Í þessari samvinnu hefur “Saman í sátt” haldið áfram að þróast og hefur gegnt mikilvægu hlutverki bæði sem forvarnartæki og aðgerðaráætlun þegar eineltis verður vart. Í lok skólaárs hafa nemendur svarað spurningakönnun um líðan, samskipti og einelti. Niðurstöður eru síðan kynntar nemendum og forráðamönnum.
Þegar Digraneskóli og Hjallaskóli sameinuðust haustið 2010 voru skólastjórnendur sammála um að “Saman í sátt” væri tæki sem ætti að standa vörð um. Áður hafði starfsfólk Hjallaskóla fengið kynningu á “Saman í sátt” og þeirri hugmyndafræði sem aðgerðaráætlunin byggir á. Það var því einhugur á meðal starfsfólks Álfhólsskóla að leggja upp með þessa aðgerðaráætlun og má segja að við bættist dýrmæt reynsla og þekking frá starfsfólki Hjallaskóla sem gerir aðgerðaráætlunina enn betri.
Til þess að glöggva sig betur á hugmyndafræðinni sem dr. Erling Roland byggir á er bent á aðgerðaráætlunina í heild sinni sem er að finna á heimasíðu skólans undir Skólinn / „Saman í sátt“ Aðgerðaráætlun. Þar er eineltishugtakið skilgreint og síðan lýsing á verklagsferlum sem fara af stað ef tilkynning um einelti berst starfsmönnum skólans. Sjá má fasta liði sem tilheyra „Saman í sátt“ í svokölluðu Árshjóli, en það er einnig að finna í aðgerðaráætluninni.
Óskað er eftir því að tilkynning um einelti berist viðkomandi deildarstjóra eða skólastjórnendum sem munu síðan setja ákveðinn verkferil af stað.
Mikilvægt er að halda staðreyndum málsins til haga fyrir sérfræðinga skólans svo þeir geti sem fyrst greint málin og unnið að farsælli lausn þeirra í samvinnu við þá aðila sem tengjast málunum.
Skilgreining á einelti:
Einelti er áreiti sem á sér stað þegar ofbeldi beinist að ákveðnum einstaklingi í lengri eða skemmri tíma. Í einelti felst misbeiting á valdi, sá kraftmeiri ræðst á þann kraftminni.
Ath. Þegar einelti á sér stað er ávalt um ójafnan leik að ræða, þ.e. á einhvern hátt ræðst sá kraftmeiri á þann sem er minni máttar og getur því ekki varið sig.