Þá er hafinn undirbúningur að spurningakeppninni Lesum meira og er það í fimmta sinn sem við keppum. Keppnin gengur út á að lesa, bæði almennan lestur og af valbókalista. Keppnin er liður í læsisátaki Álfhólsskóla, og er innan húss keppni,en hún gengur út á bætt læsi allra nemenda skólans. Í þessari keppni reynir á samvinnu og skipulag innan bekkjanna. Þegar bekkir undirbúa sig er mikilvægt að allir nemendur lesi sem mest. Bæði til að allir hafi nokkurt gagn og gaman af keppninni. Þegar valið er keppnislið úr bekkjunum er yfirleitt valið áhugasamasta fólkið en ef mun fleiri vilja keppa en stærð liðanna leyfir en aðeins komast fimm í bekkjarlið, verður könnun lögð fyrir og komast þá þeir að sem ná flestum stigum. Sigurliðið fær síðan verðlaunabikar sem er farandbikar og varðveitir hann fram að næstu keppni. Þess má geta að í keppni sem þessari vinna allir að bættum lestri, lesskilningi og aukinni ánægju af lestri og má því segja að allir vinni en eitt bekkjarlið stendur þó upp að lokum sem sigurvegarar.
Keppnin er í nokkrum þáttum en fyrsti hluti keppninnar er úr almennri þekkingu og þá kemur sér að vera almennt vel lesinn. Annar hlutinn eru vísbendingarspurningar en síðasti hluti keppninnar sem gefur lang flest stig er úr valbókalista sem birtur er á pésa sem allir nemendur í 4. – 7. bekk hafa fengið en eru einnig birtir á vefsíðu skólans sjá: https://alfholsskoli.is/index.php/frettir-og-tilkynningar/508-spurningakeppnin-lesum-meira. Keppnin er unnin í samvinnu við Bókasafn Kópavogs en við mælum með sumarlestri sem safnið býður upp á. Þar er upplagt að lesa bækur af valbókalista og nýta sumarið vel. Fyrir þá sem þurfa að nýta hlustunarefni bendum við á Hljóðbókasafn Íslands. Að lokum minnum við á að mjög mikilvægt er að nemendur séu duglegir að afla sér þeirra bóka sem þeir þurfa að lesa og foreldrar séu tilbúnir að aðstoða þau.
Meginmarkmið spurningakeppninnar er að nemendur lesi meira og fjölbreyttara efni, þekki nokkur íslensk skáldverk og höfunda þeirra og auki ánægju sína af lestri. Þá skiptir mjög miklu máli að foreldrar séu virkir í að styðja börn sín og hvetja. Hér er bókalisti fyrir: yngra stig 2014 – 2015 og hér er fyrir eldra stig 2014 – 2015
Gangi okkur öllum vel.
Siggerður Ólöf Sigurðardóttir.