Velkomnir allir foreldrar !
Við upphaf skólaárs langar okkur í nýkjörinni stjórn Foreldrafélags Álfhólsskóla (FFÁ) að koma á framfæri upplýsingum um vetrarstarfið og hvað FFÁ stendur fyrir? Gefinn var út nýr kynningarbæklingur um FFÁ og honum dreift meðal allra foreldra skólans á skólaboðunardaginn 22. ágúst. Með þessu litla riti viljum við einnig koma til móts við þarfir foreldra fyrir upplýsingum um þátttöku þeirra í foreldrastarfinu, réttindi og skyldur. Aðalatriðið er að foreldrum við skólann finnist þeir vera fullgildir þátttakendur í skólastarfinu, bæði við undirbúning þess og framkvæmd frá fyrsta skóladegi. Skólaganga barnanna okkar í vetur er í húfi.
Í nýrri Aðalnámskrá grunnskóla (2011) segir að mikilvægt sé að starfsfólk skóla, nemendur og foreldrar vinni vel saman að mótun þessa samfélags og þeirra umgengnishátta sem eiga að einkenna samskipti innan skólans og utan. „Til þess að það gangi vel þarf að ræða reglulega um áherslur og koma sér saman um meginviðmið“.
Það er ætlan okkar með þessu bréfi að foreldrar í Álfhólsskóla geti frá fyrsta skóladegi tekið virkan þátt í því að móta skólastarfið og þær áherslu sem við viljum leggja upp með í vetur. „Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti, og upplýsingamiðlun beggja aðila, sameiginlegum ákvörðunum og samábyrgð“, eins og stendur í Aðalnámskránni.
Það er því ekkert að vanbúnaði en setja sig í startholurnar og taka virkan þátt í foreldrastarfi FFÁ í vetur og hafa í huga að allt er þetta gert til að skapa góðan skólabrag, bæta líðan barnanna okkar og að skólagangan verði farsæl. Við í stjórn FFÁ munum leggja okkur fram um að starfið sé vel kynnt svo foreldrum finnist bæði spennandi og gefandi að taka þátt.
Við viljum nota tækifærið og bjóða nýja foreldra og nemendur þeirra sérstaklega velkomna í Álfhólsskóla 2013-2014.
Gleðilegt skólaár,
stjórn FFÁ