Ljóðstafur Jóns úr Vör

Í gær var verðlaunaathöfn í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs og við sama tilefni voru veitt verðlaun í Ljóðstaf Jóns úr Vör. Þrjú ljóð hlutu verðlaun frá 1.- 3.sæti og sex ljóð sérstaka viðurkenningu dómnefndar.
Það er mjög gleðilegt að segja frá því að Friðjón Ingi Guðjónsson, 10.bekk Álfhólsskóla hlaut 1.verðlaun fyrir ljóð sitt Hugmynd. Lukasz Tadeusz Krawczyk í 9.bekk hlaut 3.verðlaun fyrir ljóð sitt Hjartað. Hrafnhildur Freyja Einarsdóttir í 10.bekk hlaut einnig sérstaka viðurkenningu fyrir ljóðið sitt Mamma.
1. verðlaun
Hugmynd
Allar hugmyndir mínar renna út í bláinn
ásamt fuglunum og fiskunum. Þær fljúga
hátt og synda lágt. Þangað til þær snúa við.
Og koma til mín seint um nótt, ég sem
ætlaði að sofna.
Friðjón Ingi Guðjónsson
3. verðlaun
Hjartað
Í dag hef ég uppgötvað
að með hverri hugleiðslu
getur vöðvi andlega hjartans orðið sterkur,
sterkari, sterkastur.
Lukasz Tadeusz Krawczyk
Viðurkenning
Mamma
Þegar ég er leið, ert þú mín skeið
skólfar mér upp af gólfinu
og tekur utan um mig
Orð þín eru hlý og góð
eins og ullarsokkar og kuldaskór
Þú ert eins og sólin bjarta
alveg eins og orðin þín
Þú ert besta mamma mín
og ég verð alltaf stelpan þín
Hrafnhildur Freyja Einarsdóttir
Posted in Fréttir.