Glæsileg frammistaða

Ylfa Kristín Bjarnadóttir, nemandi í 4.bekk í Álfhólsskóla var ein af 10 vinningshöfum í teiknimyndasamkeppni sem haldin var í tengslum við hinn árlega Alþjóðlega skólamjólkurdag.

Líkt og undanfarin ár naut dómnefnd liðsinnis mennta- og menningarmálaráðherra en Lilja Dögg Alfreðsdóttir tók þátt í valinu á verðlaunamyndunum fjórða árið í röð. Að sögn Lilju Daggar báru myndirnar vott um öflugt og faglegt myndmenntarstarf í skólum landsins og hrósaði hún bæði nemendum og kennurum fyrir að leggja svona hart að sér og senda einstaklega fjölbreyttar og fallegar myndir í keppnina.

Tæplega 2.000 myndir bárust í keppnina í ár frá 89 skólum og ljóst að öll fyrri þátttökumet hafa verið slegin en að jafnaði hafa innsendar myndir verið um 1.000-1.500 talsins. Tíu myndir voru valdar úr þessum mikla fjölda. Verðlaunahöfum eru veitt viðurkenningarskjöl fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá Mjólkursamsölunni. Verðlaunaféð rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi og getur bekkurinn nýtt þá upphæð í að gera sér glaðan dag saman til að efla liðsheild í samráði við umsjónakennara og skólastjórnendur.

Við óskum Ylfu Kristínu innilega til hamingju með þessa glæsilegu vinningsmynd !

Posted in Fréttir.