Vináttuganga

Í gær var árlegur baráttudagur gegn einelti. Dagurinn var haldinn hátíðlegur í Álfhólsskóla að vanda. Vinabekkir hittust um morguninn og teiknuðu saman sjálfsmyndir í sínum litum en hver vinabekkur á sinn lit. Stefnt er á að raða saman sjálfsmyndunum á veggjum skólans í vinátturegnboga. Að því loknu gengu nemendur og starfsfólk á leikskólana í hverfinu og sóttu elstu börnin þar. Saman fórum við svo öll í skrúðgöngu gegn einelti í íþróttahúsið Digranesi. Í íþróttahúsinu var fjölbreytt og skemmtileg dagskrá. Leikskólarnir sungu vináttulög fyrir okkur í Álfhólsskóla og við sungum vináttulag fyrir þau. Kórar skólans tóku lagið og söngleikjaval steig á stokk. Helga Fanney, formaður nemendaráðs, sá um að kynna og stýra dagskránni og að henni lokinni gengu allir nemendur og starfsfólk skólans út í Hjalla þar sem tekið var saman höndum og myndaður vináttuhringur utan um skólann okkar. Flogið var með dróna hringinn í kringum skólann til þess að mynda hringinn.

Þessi dagur heppnaðist ákaflega vel!

Posted in Fréttir.