Lykilhæfnidagar

Alla síðustu viku hafa nemendur á unglingastigi fengið tíma og tækifæri til þess að vinna að lengri verkefnum, skipuleggja vinnu sína einstaklingslega og í hóp og hvatningu til að bera ábyrgð á eigin námi. Heill dagur var helgaður einni til tveimur námgreinum í hverjum árgangi. Dagurinn í dag er helgaður íslenskuvinnu og eru nemendur ýmist að skrifa ritgerðir, semja handrit og túlka Íslendingasögur með mynböndum. Morgundagurinn verður helgaður stærðfræðinni og þá munu nemendur vinna bæði sjálfstætt og í hópverkefnum. Fyrr í vikunni voru svo tungumáladagur, náttúrufræði- og samfélagsfræðidagur.

Þessir dagar eru í góðum takti við lykilhæfni markmið Aðalnámskrár, sem eru eftirfarandi:

  • Hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega, skriflega og á annan hátt. Hæfni til að miðla þekkingu og leikni sinni og flytja mál sitt skýrt og áheyrilega og taka þátt í samræðum og rökræðum.
  • Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu. Hæfni nemenda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun og röksemdarfærslu.
  • Hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn.
  • Hæfni nemenda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt.
  • Hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu.

Þessir dagar hafa heppnast mjög vel og er vilji til þess að endurtaka þá við tækifæri.

Posted in Fréttir.