Á fimmtudeginum 15.des. fyrir jólafrí hélt 6.bekkjar árgangurinn lokahátíð í stóra ferðaskrifstofuverkefninu sem unnið var um Norðurlöndin. Allir hóparnir settu upp bása og kynntu verkefnið sitt sem samanstóð meðal annars af stóru og nákvæmu plaggati með mynd af landinu sínu og greinagóðu myndbandi sem nemendur höfðu tekið upp og unnið í spjaldtölvum. Nemendur höfðu hannað og búið til sitt eigið vörumerki fyrir ferðaskrifstofuna sína sem og slagorð sem voru vel auglýst á básunum þeirra. Nemendur sýndu einnig bæklingana sína og buðu þar upp á mismunandi pakkaferðir fyrir hugsanlega viðskiptavini sína en bæklingarnir voru einnig unnir í spjaldtölvum. Þar lá mikil vinna að baki við að reikna út áætlaðan kostnað, bjóða upp á mismunandi ferðamáta og fleiri hluti sem huga þarf að þegar kemur að pakkaferðum. Nemendur buðu foreldrum sínum að koma í heimsókn á sýninguna sem og stjórnendum skólans og nemendum úr 5.bekk. Allir básarnir buðu upp á góðgæti frá þeirra landi en auk þess voru margir með einhverja minjagripi eða annað sniðugt frá landinu sínu. Allt gekk þetta mjög vel fyrir sig, gleðin réði ríkjum og samskipti nemenda og gesta voru ánægjuleg. Það er alltaf gaman að sjá afrakstur mikillar vinnu þar sem nemendur uppskáru sannarlega eins og þeir sáðu, virkilega vel að verki staðið hjá þeim. Hér eru myndir frá lokahátíðinni.