Álfhólsskólanemendur standa sig vel í ljóðasamkeppni

Nemendur í Álfhólsskóla tóku þátt í ljóðasamkeppni grunnskólanna í tengslum við Ljóðstaf Jóns úr Vör.  Send voru inn 10 ljóð af eldra og miðstigi.  Tveir nemendur skólans hlutu viðurkenningar á ljóðahátíð Ljóðstafs Jóns úr Vör í Salnum á afmælisdegi skáldsins.  „Ljóð“ eftir Diellzu Morina varð í öðru sæti.  Þetta er  falleg og ljóðræn næturmynd.  Ljóðið er stutt og áhrifamikið.  Diellza notar einfalt myndmál til að túlka tilfinningar og fegurð.  Afrek hennar er ekki minna í ljósi þess að íslenska er hennar annað mál:
 
Enn flýtur myrkrið um rótlausa farvegi loftsins
Úti glitrar krapið
Mánaljósið glampar
Undir stjörnudýrð heimsins standa staurarnir
Einir.

Hér er mynd af verðlaunahöfum keppninnar.
Diellza er lengst til vinstri og Lena Margrét önnur frá hægri.  

Annað ljóð nemanda skólans hlaut einnig viðurkenningu.  Í því er slegið á glettna strengi og kveikjan að ljóðinu er kannski sú raun að komast ekki í sturtu á réttum tíma. Kvæðið nefnist Morgunninn.  Höfundur er Lena Margrét Jónsdóttir.

Sorrí, ég er með ritstíflu,
ég svaf svo lítið í nótt.
Vindurinn blés svo mikið
og mér var ekki rótt!
 
Þegar ég vaknaði í morgun
var allt svo hræðilegt.
Pabbi var í sturtu á mínum tíma.
Það var skelfilegt! 

Þegar ég kom í skólann
átti ég að semja ljóð.
Um hvað á það að vera,
menntun, veður eða flóð?

Posted in Eldri fréttir.