Skólareglur Álfhólsskóla
Allt skólastarf í Álfhólsskóla lýtur landslögum.
1. Nemendur og fullorðnir sýna hverjir öðrum virðingu, kurteisi og tillitssemi.
Nemendum ber að hlíta fyrirmælum starfsmanna skólans.
Við biðjumst afsökunar ef við brjótum þessa reglu.
2. Nemendur og starfsmenn mæta stundvíslega í allar kennslustundir.
Foreldrar eða forráðamenn skulu tilkynna daglega og samdægurs forföll fyrir kl. 8:10
á skrifstofu skólans.
Við bönkum á hurð og biðjumst afsökunar ef við komum of seint.
3. Nemendur fara úr útiskóm við útidyr og yfirhöfnum áður en farið er í kennslustund.
Þeir ganga vel og snyrtilega um húsnæði skólans og eigur hans, s.s. bækur,
kennsluáhöld og húsgögn.
Við göngum frá eftir okkur.
4. Nemendur hafa með sér þau gögn sem til þarf í skólann. Nemendum ber að stunda nám sitt af kostgæfni og virða rétt annarra til að hafa góðan vinnufrið í skólanum.
Við stefnum að virkni í kennslustundum og virðingu fyrir náunganum.
Með því móti stuðlum við að meiri vellíðan í skólanum.
5. Notkun línuskauta, hjólaskauta, hlaupahjóla, hjólabretta, reiðhjóla og vélhjóla er bönnuð á skólalóðinni á skólatíma.
Við truflum ekki leiki annarra á skólalóðinni og sýnum hvert öðru tillitssemi.
6. Nemendum á yngsta- og miðstigi er óheimilt að fara út af skólalóð í frímínútum.
Á skólatíma eru nemendur á ábyrgð skólans og því mikilvægt að enginn yfirgefi skólalóð án þess að biðja um leyfi.
7. Nemendur eiga ekki að koma með með peninga í skólann að óþörfu og skilja ekki verðmæti eftir í fötum sínum á göngum eða í búningsklefum. Skólinn tekur ekki ábyrgð á persónulegum munum nemenda eða fjármunum.
Við virðum eigur annarra og komum til skila því sem við finnum og er ekki okkar eign.
8. Símanotkun nemenda er bönnuð á skólatíma á yngsta- og miðstigi. Á unglingastigi er símanotkun bönnuð í kennslustundum. Notkun annarra tækja er aðeins heimil í samráði við viðkomandi kennara. Skólinn tekur ekki ábyrgð á persónulegum munum og/eða fjármunum nemenda.
Við höfum slökkt á símum á skólatíma.
9. Óheimilt er að vera með gosdrykki, orkudrykki og sælgæti í skólanum nema við sérstök tilefni.
Við viljum leggja áherslu á heilbrigðar lífsvenjur og að borða holla og næringarríka fæðu.
Umsjónarkennararskulu fjalla umskólareglurnar, þýðingu þeirra og hlutverk með nemendum sínum eins oft og þurfa þykir.
Ár hvert skulu skólareglurnar kynntar nemendum og forráðamönnum þeirra og birtar í starfsáætlun.
Við berum öll ábyrgð á að fara eftir reglum skólans
Ferli vegna óviðeigandi hegðunar og brotum nemenda á skólareglum
Vísað er til reglugerðar nr. 1040/2011.
Afleiðingar af neikvæðri hegðun eru skýrar og sanngjarnar. Þær eiga ekki að koma nemendum og forráðamönnum þeirra á óvart.
Almennar aðgerðir
Í almennum aðgerðum felst að:
Fylgja vel eftir þeim kröfum sem gerðar eru til nemenda.
Sýna nemendum skilning, þolinmæði og sveigjanleika.
Hvetja nemendur með jákvæðum hætti til þess að læra góð mannleg samskipti.
Veita nemendum persónulega aðstoð.
Gefa nemendum færi á að tjá sig og segja frá málsatvikum.
Boða forráðamenn á upplýsingafund ef hegðun nemenda truflar skólastarf.
Sértækar aðgerðir og viðurlög
Ávallt skal taka tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og hafa samráð við forráðamenn.
Leggja skal áherslu á að leitað sé eftir samkomulagi og sáttaleiðum.
1. Gerist nemandi sekur um brot á skólareglum með einum eða öðrum hætti á
starfsmaður að byrja á að ræða við hann og reyna með yfirvegun og samtali að
stöðva hegðunina. Hann getur óskað eftir aðstoð hjá nálægum starfsmanni eða
hringt í deildarstjóra eftir aðstoð.
2. Valdi nemandi verulegri truflun og/eða gerist ítrekað brotlegur við gildandi
skólareglur á:
- viðkomandi kennari að upplýsa forráðamenn og umsjónarkennara og sjá um að atvikið verði skráð í mentor.
- umsjónarkennari að meta mál nemandans, ræða einslega við hann og aðstoða hann við að bæta hegðun sína.
- umsjónarkennari að upplýsa nemanda til hvaða úrræða verði gripið ef hegðunin endurtekur sig.
3. Ef nemandi lætur sér ekki segjast, er máli hans vísað til deildarstjóra sem getur boðað hann, umsjónarkennara og forráðamenn hans í viðtal.
4. Verði enn ekki breyting til batnaðar skulu kennarar leita aðstoðar skólastjórnenda og sérfróðra ráðgjafa skólans sem skulu leita leiða til úrbóta að teknu tilliti til hlutverks nemendaverndarráðs.
5. Ef áðurnefndar aðgerðir bera ekki árangur getur skólastjóri vísað máli nemanda til
fræðsluyfirvalda.
6. Gerist nemandi sekur um alvarlegt brot á reglum skólans og/eða landslögum hvar
sem hann er staddur á vegum skólans skal ávalt hafa samráð við forráðamenn og
búa nemanda undir að hann verði sendur heim á kostnað forráðamanna.
7. Nemendur og forráðamenn þeirra eru ábyrgir fyrir því tjóni sem nemendur kunna að valda á eigum skólans, starfsfólks eða skólafélaga sinna.
Kennarar skulu skrá mál samkvæmt verklagsreglum skólans.
Verklagsreglur og viðurlög við brotum eru á heimasíðu skólans.
Forráðamönnum skal ætíð svo fljótt sem auðið er gerð grein fyrir brotum barna sinna á skólareglum.
Gefa skal forráðamönnum kost á að tjá sig ef börn þeirra brjóta skólareglur.