Foreldrarölt

Hvers vegna röltum við? 
Foreldrarölt er samfélagslegt mál og varðar okkur öll. Foreldrar á rölti eru í senn eftirlitsaðilar með reglum og nágrannavakt. Hvort tveggja miðar að því að hafa eftirlit með því sem gerist utan veggja heimilanna, vera aðhald við lögbundinn útivistartíma og vernda börn og unglinga frá utanaðkomandi aðilum sem eiga ekki erindi við þau s.s. söluaðila vímuefna og áfengis. Að auki verðum við reynslunni ríkari af kynnum okkar við aðra í foreldrahópnum og önnur börn.
Margir segja sem svo ”ég þarf ekki að rölta, barnið mitt er alltaf heima”. Saman berum við ábyrgð í þjóðfélaginu þ.m.t. á börnum og unglingum sem eru á okkar sameiginlega svæði. Þau eru okkar framtíð og við verndum þau líka. (bæklingur Samkóps “Við vökum yfir þér”)

Munið að foreldrar eru bestir í forvörnum
samtaka, ákveðnir og elskulegir !

 Hvernig förum við að? 
Röltnefnd foreldrafélagsins skipuleggur í upphafi skólaárs hvenær hver bekkur á að rölta. Eins og sjá má á röltáætluninni hér á síðunni fer hver bekkur á mið- og unglingastigi 1-2 sinnum yfir veturinn.
Röltnefndin sendir í hverri viku tilkynningu til bekkjafulltrúa viðkomandi bekkjar um að komið sé að þeim að sjá um röltið. Bekkjafulltrúarnir sjá síðan um, með tölvupósti eða símtölum, að útvega sem flesta foreldra til að fara á röltið.
Einhver þeirra sem röltir þarf að  sjá um að sækja tösku á lögreglustöðina við Dalveg.  Við móttöku og skil á töskunni kvittar viðkomandi í þar til gerða bók á lögreglustöðinni.  Í töskunni er sími, mappa með skýrslueyðublöðum, vesti merkt foreldraröltinu, reglur foreldraröltsins og ýmis símanúmer. Einnig er í töskunni lykill að gæsluvellinum við Efstahjalla þar sem hægt er að setjast inn.

Posted in Foreldrarölt.