Saman í sátt – skólabragur

Skólabragur byggir á reynslu upp og upplifun nemenda, foreldra og starfsfólks skólans og endurspeglar viðmið, markmið, gildi, samskipti, kennslu-, náms-, starfs- og stjórnunarhætti innan skólans (t.d. Thapa A, Chohen, J, Guffey, S og Higgins-D´Alessandro, 2013; Cohen, J, McCabe, E.M., Michelli, N.M. og Pickeral, T, 2009). Skólabragur er órjúfanlegur hluti af skólamenningu, eða þeim skráðu og óskráðu reglum sem hafðar eru í heiðri (Gruinert, 2008).

Í aðalnámskrá grunnskóla (2013) er rík áhersla lögð á gildi jákvæðs skólabrags og skólamenningar. Fjöldi rannsókna (t.d. Kramer II, Watson og Hoge, 2013; .d. Thapa A, o.fl. 2013; Cohen, J. o.fl. 2009) benda til þess að jákvæður skólabragur ýti undir vellíðan nemenda, góðan námsárangur og öfluga félagsfærni nemenda. Auk þess er jákvæður skólabragur í eðli sínu forvarnastarf og getur dregið úr neikvæðum samskiptum, s.s. samskiptavanda, einelti og öðru ofbeldi  sem og kvíða, skólaleiða og einmanleika (Margrét Héðinsdóttir ofl., 2013; .d. Thapa A, o.fl., 2013; Cohen, J, o.fl, 2009; Hansen, 2014; Cohen, J., Espelage, D., Twemlow, S.W. Berkowitz, M.W. og Comer, J.P., 2015). Skólabragur birtist einnig í hegðun og framkomu,námsaga og sjálfsaga nemenda. Meðal grundvallarréttinda nemenda er að hafa vinnufrið í skólanum þannig að þeir geti náð sem bestum tökum á náminu og að kennslan nýtist þeim sem best. Því má ætla að áríðandi sé að skapa jákvæðan skólabrag í hverjum námshópi, bekkjardeild og svo skólasamfélaginu í heild.

Til að efla jákvæðan skólabrag leggur Álfhólsskóli rækt við uppbyggilega samskipti sem einkennast af gagnkvæmri virðingu milli einstaklinga. Reynt er að skapa vettvang þar sem nemendur fá tækifæri til að tjá skoðanir sínar og hafa áhrif á skólastarfið. Hafa ber í huga að góð skólamenning og skólabragur er vegferð en ekki áfangastaður.

Til að stuðla að góðum skólabrag:

 • Þarf viðhorf til foreldra að vera jákvætt og áhersla á öflugt foreldrastarf.
 • Þarf að ríkja gagnkvæm virðing.
 • Þurfa starfsmenn að sýna umhyggju.
 • Þarf umhverfi að vera hlýlegt .
 • Þarf að hlusta á nemendur.
 • Þurfa nemendur bera ábyrgð.
 • Þurfa nemendur að fá tækifæri til að hafa áhrif á skólastarfið.
 • Þarf að halda bekkjarfundi reglulega.
 • Þarf að sýna nemendum traust.
 • Þarf að vera öflug lífsleiknikennsla.
 • Þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki.
 • Þarf blöndun nemendahópa innan árgangs eða aldurshópa að eiga sér stað.
 • Þurfa kennarar að sýna samstöðu og samvinna þarf að vera lausnamiðuð.
 • Þarf að gefa skýr skilaboð.
 • Þurfa foreldrar, starfsfólk og nemendur að vinna saman.
 • Þurfa kennarar og starfsmenn að vera góðar fyrirmyndir.

Í Álfhólsskóla vinnum við eftir aðgerðaráætlun „Saman í sátt“ en þá bók þýddu og staðfærðu þau Elín Einarsdóttir og Guðmundur Ingi Leifsson úr norsku. Bókin er eftir  dr. Erling Roland og dr. Elaine Munthe. Þau eru þekktir sérfræðingar á sviði eineltis í Noregi og hafa samið aðgerðaráætlanir fyrir grunn-og framhaldsskóla í Noregi til þess að taka á einelti og agamálum. Þessi áætlun heitir Zero og hefur fengið viðurkenningu frá norska Menntamálaráðuneytinu. Dr. Erling Roland var á tímabili náinn samstarfsmaður Dan Olweusar sem er þekktur hér á landi fyrir eineltisáætlanir sínar.

Gildi Álfhólsskóla er menntun, sjálfstæði og ánægja en auk þess hefur hver  mánuður skólaársins hefur sitt gildi sem unnið er út frá. Ágúst-menntun, september-virðing, október-hjálpsemi, nóvember-vinátta, desember-kærleikur, janúar-von, febrúar-gleði, mars-sjálfstæði, apríl-heilsa, maí-þakklæti og júní-ánægja.

Sís-fulltrúar eru valdir úr nemendahópnum fyrir hvert skólaár og vinna þeir að því að bæta skólabrag í samvinnu við kennara og aðra nemendur. Sú vinna felst aðallega í því að koma með hugmyndir af verkefnum og viðburðum sem stuðla að góðum skólabrag í tengslum við gildi mánaða.

Saman í sátt – aðgerðaráætlun

Gildi mánaða skólaársins