Foreldrarölt

Foreldrarölt

Til hvers er foreldrarölt?

Það eru margar góðar ástæður fyrir því að foreldrarölt er gott, mikilvægasta ástæðan er þó sú að okkur er ekki sama. Okkur er ekki sama um hverfið okkar og okkur er ekki sama um börnin sem búa í hverfinu okkar. Við viljum varna því að unglingar lendi í vanda og við viljum koma í veg fyrir hópamyndanir eftir að útivistartíma lýkur. Foreldrarölt myndar tengsl og stuðlar að auknu samtali milli foreldra í hverfinu. Með því að taka þátt í foreldrarölti kynnist maður hverfinu og öðrum foreldrum á annan hátt. Góður andi í hverfinu hefur góð áhrif á öll börn sem þar búa. Hópamyndanir, einelti, ógnandi hegðun og slæm umgengni hefur áhrif á skólabraginn og öll börnin í hverfinu. Það er hlutverk okkar, fullorðna fólksins, að gera það sem við getum til að öllum líði vel.

Nærvera fullorðinna þar sem unglingar hafa safnast saman getur haft róandi og góð áhrif. Það minnkar líkurnar á því að unglingar lendi í slæmum aðstæðum og/eða aðstæðum þar sem þeim líður illa og eru jafnvel í hættu. Nærvera foreldra gefur unglingunum tækifæri á að leita aðstoðar ef þörf er á.

Af hverju þú?

Sem betur fer búa flestir unglingar á góðum heimilum og fá það aðhald sem þeim er nauðsynlegt og er gert að fara eftir lögbundnum útivistartíma. Það er því alveg eðlileg spurning, hvers vegna þú átt að standa upp úr sófanum og skilja þín börn eftir heima til að fara út og fylgjast með annarra manna börnum? Svo ekki sé talað um þegar barnið þitt er hugsanlega bara á yngsta stigi í skólanum og langt í að það fari að vera úti um helgar.

Með því að taka þátt ertu að hafa áhrif á hverfisbraginn og það félagslega umhverfi sem börnin í hverfinu, þín börn þar með talin, búa í. Því færri sem nota vímuefni, leggja í einelti eða beita ofbeldi því betra og öruggara er hverfið okkar.  Við berum öll ábyrgð á okkar nánasta umhverfi og við eigum að sýna þeim sem eiga í vanda að okkur sé ekki sama.

Markmið með foreldrarölti

Foreldrar veri sýnilegir og skapi gagnkvæmt traust.  Munið vestin.

Virkja foreldra til samstöðu um að virða reglur um útivist barna og unglinga.

Svo er þetta er frábær leið til að kynnast öðrum foreldrum og taka góða heilsugöngu í leiðinni.

Þau sem rölta komi sér saman um hver skili inn skýrslu vegna kvöldsins til okkar á þessari vefslóð:

https://docs.google.com/forms/d/1_ExnSHa_Fp1QPYSLx3nV_cPPSzGASFVEYZt8U3hphKU/viewform?edit_requested=true

Röltáætlun fyrir veturinn 2024-2025

Foreldrarölt - áætlun 2024-2025

Reglur foreldrarölts Álfhólsskóla

Megin reglan er: Að vera til staðar

Foreldrar hafa ekki afskipti af unglingum nema:

  • Unglingur er áberandi drukkinn.

~        hringja í lögregluna og fylgjast með viðkomandi unglingi þar til hún er mætt á staðinn.
~        Ef sami unglingur er oft áberandi drukkinn er slíkt tilkynningaskylt til unglingafulltrúa  

  • Foreldrar verða varir við sölu áfengis, landa eða annarra fíkniefna.

~        tilkynna slíkt strax til lögreglu og láta henni í té upplýsingar.

  • Ofbeldi og /eða hnífaburður á sér stað

~        hringja í lögreglu strax.
~        taka enga áhættu.

  • Foreldrar verða varir við partý í heimahúsi og unglingar leita aðstoðar foreldrarölts

~        hringja í lögregluna.
~        bíða fyrir utan þar til lögregla kemur.

  • Foreldrar verða vitni að skemmdarverkum

~        hringja í lögregluna og láta henni í té upplýsingar um máli

Það sem ekki má:

~        Það má ekki vera í vondu skapi í foreldarröltinu
~        Það má ekki skammast í unglingum
~        Það má ekki leita að áfengi á unglingum
~        Það má ekki taka áfengi af unglingum
~        Það má ekki hafa bein afskipti af sölumönnum áfengis og fíkniefna
~        Það má ekki ráðast til atlögu við ofbeldisfulla unglinga
~        Það má ekki fara inn í partý í heimahúsum
~        Það má ekki segja frá hvaða börn og unglinga foreldrar eiga
~        Það má ekki skrá nöfn unglinganna í dagbókina