Fjölmennasti grunnskóli landsins er Álfhólsskóli í Kópavogi sem varð til með sameiningu Digranesskóla og Hjallaskóla. Þar eru nú 732 nemendur.Aðrir fjölmennir skólar eru Lágafellsskóli (697), Árbæjarskóli (664), Rimaskóli (663) og Varmárskóli (661). Fámennasti grunnskólinn er Finnbogastaðaskóli á Ströndum þar sem 4 nemendur stunda nám og er það eini grunnskólinn með færri en 10 nemendur. Fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar, að alls starfa 172 grunnskólar á landinu, þremur skólum færra en í fyrra. Grunnskólum fer fækkandi vegna sameiningar og hefur fækkað um 24 skóla frá árinu 1998. Í sérskólum, sem eru 4 talsins, stunda 136 nemendur nám. Einkaskólarnir eru 10 talsins með 759 nemendur. Ekki hafa áður verið fleiri nemendur í einkareknum grunnskólum á Íslandi frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1997. Tekið af vef Morgunblaðsins. Mbl.is