Í lögum um grunnskóla segir um námsmat: Mat á árangri og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi. Tilgangur þess er að fylgjast með því hvernig nemendum tekst að mæta markmiðum aðalnámskrár og ná námsmarkmiðum sínum, örva nemendur til framfara og meta hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Nánari ákvæði um námsmat skulu sett í aðalnámskrá grunnskóla (Lög um grunnskóla, 27. gr., 2008).
Í aðalnámskrá grunnskóla segir um námsmat: Mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Með námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda.
Námsmat á einnig að veita nemendum og foreldrum þeirra, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi nemenda, hæfni þeirra, vinnubrögð og framfarir, sem m.a. má hafa að leiðarljósi við frekari skipulagningu náms (aðalnámskrá grunnskóla, 2011).
Námsmat í Álfhólsskóla
Í Álfhólsskóla er skólaárinu skipt upp í tvær annir. Fyrri önnin er frá skólabyrjun í ágúst og fram í janúar. Seinni önnin er frá janúar og til skólaloka í júní. Námsmatið byggist á fjölbreyttum aðferðum, leiðsagnarmati, sjálfsmati nemenda, frammistöðumati, jafningjamati, matssamtölum, stundum safnmöppumati (portfolio) og hefðbundnum prófum svo eitthvað sé nefnt. Lögð er áhersla á sívirkt mat, þ.e. að stöðugt fari fram mat og endurgjöf til nemenda sem ætlað er að auðvelda þeim, foreldrum þeirra og kennurum að skipuleggja áframhaldandi nám hvers nemanda. Áherslur í námsmati geta verið mismunandi milli aldursstiga og einnig milli námsgreina.
Námsmat skólans nær til eftirfarandi þátta:
- Hvernig nemandanum hefur gengið að öðlast þá þekkingu, kunnáttu, skilning, leikni, viðhorf, vinnubrögð og tjáningarmáta sem að var stefnt.
- Áhuga nemandans á náminu og líðan.
- Möguleika nemandans til að þroska hæfileika sína og öðlast meira sjálfstæði í starfi.
- Virkni nemandans, vilja hans og hæfni til að vinna með öðrum að lausn viðfangsefna.
Þess er enginn kostur að meta námsgengi og framfarir eingöngu með prófum og öðrum formlegum aðferðum. Mörg markmið eru þess eðlis að einungis huglægu mati verður við komið. Niðurstöður námsmats byggjast jöfnum höndum á huglægu mati kennara og á formlegum aðferðum, svo sem prófum og könnunum. Hafa verður hugfast að sum markmið eru þess eðlis að ekki kemur fram fyrr en seinna í lífinu hvort þeim varð náð eða ekki. Þau verða því ekki metin með venjulegu námsmati.
Hæfnimiðað námsmat
Með hæfnimiðuðu námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná hæfniviðmiðum aðalnámskrár sem og skólanámskrár. Eins og í öðrum grunnskólum landsins er hæfnimiðað námsmat í Álfhólsskóla enn í þróun og felur í sér mikla hugarfars breytingu um nám og kennslu almennt. Slíkar breytingar taka tíma og er Álfhólsskóli kominn vel á veg.
Niðurstöður námsmats birtist nemendum í gegnum hæfniviðmið og matsviðmið í Mentor. Þar geta foreldrar og nemendur nálgast hæfnikort nemenda og séð yfirlit yfir hvar nemandinn er staddur í hverri grein, hvaða viðmiðum hann hefur náð og hvar hann þarfnast frekari þjálfunar ef það á við. Þess ber jafnframt að geta að hæfnikort nemenda í einstaka námsgreinum eru að byggjast upp á hverju stigi fyrir sig þannig að hæfnikortin eiga að vera fullútfyllt við lok 4.bekkjar, lok 7.bekkjar og lok 10.bekkjar.
Hæfniviðmið eru metin út frá fimm táknum: frammúrskarandi, hæfni náð, á góðri leið, þarfnast frekari þjálfunar og hæfni ekki náð. Hæfnieinkunn eða hæfni út frá námsviði er svo samantekt á hæfni nemandans í viðkomandi grein dregin saman í eina hæfnieinkunn, þ.e. lokaeinkunn. Í 1.-6.bekk er lokamat gefið með hæfnitákni og umsögn. Í 7.-10.bekk er lokaeinkunn gefin í: A, B+, B, C+, C og D. (Á miðstigi geta kennarar þó sleppt því að gefa einkunnina D og einungis gefið umsögn).Í stuttu máli þýða bókstafirnir og hæfnitáknin eftirfarandi:
- D: Hæfni er ekki náð. Nemandinn hefur ekki náð neinum tökum á þeirri hæfni sem ætlast er til að hann búi yfir í lok annar miðað við jafningja og eign forsendur.
- C: Þarfnast þjálfunar. Nemandinn hefur náð tökum á hluta af þeirri hæfni sem ætlast er til að hann búi yfir í lok annar miðað við jafningja og eigin forsendur en þarfnast þjálfunar á ákveðnum sviðum.
- C+: Á góðri leið. Nemandinn er á góðri leið með að ná tökum á þeirri hæfni sem ætlast er til að hann búi yfir í lok annar miðað við jafningja og eigin forsendur. Vantar herslumuninn upp á að hæfni sé náð.
- B: Hæfni náð. Nemandinn hefur náð tökum á þeirri hæfni sem ætlast er til að hann búi yfir í lok annar miðað við jafningja og eigin forsendur.
- B+: Mjög góð hæfni. Nemandinn hefur náð mjög góðum tökum á þeirri hæfni sem ætlast er til að hann búi yfir í lok annar miðað við jafningja og eigin forsendur auk þess sem hann hefur sýnt fram á frammúrskarandi hæfni á einhverjum sviðum.
- A: Frammúrskarandi hæfni. Nemandinn hefur náð frammúrskarandi tökum á þeirri hæfni sem ætlast er til að hann búi yfir í lok annar miðað við jafningja og eign forsendur.
Á samráðsdegi í byrjun febrúar gefst kostur á að fara yfir niðurstöðu námsmats eftir haustönnina og leggja áherslur fyrir vorönnina. Námsmat haustannar er ekki prentað út heldur felst í því að skoða hver staða nemandans er með tilliti til þeirra hæfniviðmiða sem hann hefur unnið að. Endalegt mat á námsstöðu nemandans eftir veturinn, hvaða hæfniviðmiðum hefur verið náð að hluta eða fullu og hverjum ekki. Námseinkunn nemandans miðast við stöðuna í lok vetrar (eða á þeim tímapunkti þegar heildarmat er tekið) en er ekki meðaltal úr öllu því sem nemandinn hefur unnið. Hér er spurningin hvað nemandi kann og getur við lok námslotu en ekki hvernig honum gekk að meðaltali.
Í byrjun hvers skólaárs fundar hver deildarstjóri með sínum kennurum og fer yfir það hvernig námsmati skuli háttað á stiginu. Skipulag námsmatsins skal birtast í skólanámskrá og koma fram í námslotum í Mentor.
Samráðsdagar eru tvisvar á vetri, í október og febrúar. Á samráðsdögum koma saman nemendur, forráðamenn og kennarar, í formlegu samtali, þar sem farið er yfir líðan, markmið, væntingar, námsframvindu og námsárangur. Rík áhersla er á að nemendur mæti ásamt forráðamönnum í þessi samtöl.
Einstaklingsnámskrár
Þegar nemandi er með einstaklingsnámskrá eru hæfniviðmið og markmið einstaklingsnámskrár alfarið ákvörðuð út frá einstaklingnum sem við á og víkja verulega frá hæfniviðmiðum árgangsins. Samantekt á hæfni, lokamat, er stjörnumerkt og miðuð út frá hæfnikorti og markmiðum einstaklingsins en ekki árgangsins. Einstaklingsnámskrá þarfnast ávallt samþykkis og undirskrift foreldra.
Aðlöguð námsmarkmið
Nemandi sem getur fylgt hæfniviðmiðum og markmiðum árgangsins að hluta er sagður með aðlöguð námsmarkmið. Þegar kemur að því að draga saman í hæfnieinkunn að vori er horft hæfnikort nemandans út frá árganginum í heild og þar með þau markmið sem þessi nemandi var ekki að vinna með. Þetta felur í sér að óhjákvæmilega hefur nemandinn ekki náð ákveðnum hæfniviðmiðum sem unnið var með í árganginum. Nemandi með aðlöguð námsmarkmið getur því í raun aldrei náð B eða „hæfni náð“ í lokamati þar sem hann hefur ekki náð tökum á öllum þeim hæfniviðmiðum sem ætlast er til að hann hafi náð í lok árs miðað við jafningja. Hann getur því í mesta lagi fengið C+ (á góðri leið) og svo lýsandi og uppbyggjandi umsögn þar sem það kemur fram að hann hafi verið með aðlöguð námsmarkmið. Þegar við hættum að meta nemandan út frá jafnöldrum erum við farin að vinna eftir einstaklingsnámskrá og þá er lokamat stjörnumerkt. Í flestum tilfellum er æskilegra að nemandinn fái C eða C+ óstjörnumerkt en að stjörnumerkt B, B+ eða A. Mikilvægt er að muna að stjörnumerkt einkunn þýðir að nemandinn geti ekki haldið í við jafningja sína.
Nemandi sem vinnur að öllum sömu hæfniviðmiðum og árgangurinn, en í öðru námsumhverfi og/eða út frá öðrum verkefnum, er metinn út frá sömu forsendum og nemendur í almennri bekkjarkennslu. Horft á hæfnikortið í heild og dregið saman í bókstaf og umsögn. Hér er það hæfnin sjálf sem skiptir máli, ekki hvaða leiðir var farið til að ná henni eða sýna hana.
Íslenska sem annað tungumál
Nemendur í íslensku sem öðru tungumáli eru alltaf með námskrá út frá því á hvaða stigi þeir eru (forstig, stig 1, 2 eða 3) og eru metnir út frá hæfnikorti þeirra á því stigi sem þeir eru mestmegnis. (Einhver skörun getur verið á milli stiga). Bókstafurinn er óstjörnumerkur og fylgir honum lýsandi og uppbyggileg umsögn eftir þörfum.
Einhverfudeild
Allir nemendur í einhverfudeild eru með einstaklingsnámskrá og fá vorskýrslu í lok skólaársins. Kennarar skrá námsmat inn á vitnisburðarblöð fyrir hvern nemanda fyrir sig, ýmist stjörnumerkt eða óstjörnumerkt eftir því sem við á. Í einhverjum tilfellum fá nemendur einungis umsagnir.
List- og verkgreina kennarar og íþróttakennarar meta nemendur í einhverfudeildum með sama hætti og aðra nemendur þar sem má koma því við. Ef það þurfti að aðlaga námið og verkefni að nemandanum með þeim hætti að það víkur verulega frá hæfniviðmiðum árgangsins skal gefa nemandanum umsögn og autt í stað bókstafs. Stjörnumerktar einkunnir eiga einungis við þar sem um einstaklingsnámskrá með samþykki foreldra er að ræða.