Uppskera eftir góðgerðardaginn

Á föstudaginn komu nemendur og starfsfólk Álfhólsskóla saman í sitthvoru húsinu, Hjalla og Digranesi til að fagna frábæru framtaki nemenda í Álfhólsskóla í góðgerðarvikunni í lok nóvember. Í góðgerðarvikunni lögðu nemendur sig alla fram við að gera góðverk og safna fyrir verðugum málefnum. Nemendur sýndu að litlar gjörðir geta haft stór áhrif. Ýmist var föndrað, smíða, bakað eða safnað varning að heiman til endursölu. Það var aðdáunarvert hversu mikið nemendur voru tilbúnir að leggja á sig til að láta gott af sér leiða. Erfiðið bar árangur og söfnuðu nemendur í Álfhólsskóla heilli milljón! Nemendur völdu sjálfir góðgerðarfélög til að styrkja og skiptist milljónin jafnt á milli þriggja félaga, Rauða kross Íslands, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og Barnaspítala Hringsins. Hvert félag fékk 333.447 kr í styrk.

Styrkirnir voru afhentir við tvær athafnir. Í Digranesi voru það ÖSE fulltrúar í 4.bekk sem sögðu nokkur orð og afhentu svo Rauða Kross Íslands styrkinn. Í Hjalla sögðu fulltrúar í 7.bekk nokkur orð og afhentu Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna styrk. Fulltrúar í 10.bekk afhentu Barnaspítala Hringsins styrk.

Við báðar athafnir var svo sungið lagið „Snjókorn falla“, enda athöfnin mjög í anda árstíðar kærleika og friðar, eins og segir í texta lagsins.

Að gleðja aðra er stærsta gjöfin sem hægt er að gefa.

Á Facebook síðu skólans má sjá fleiri myndir frá athöfnunum.

Posted in Fréttir.