Börn og ungmenni ræddu réttindi barna og málefni sem eru þeim hugleikin á málþingi sem efnt var til í Salnum í Kópavogi á degi mannréttinda barna, fimmtudaginn 20. nóvember.
Málþingið var haldið í tilefni afmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og afmælis Kópavogsbæjar og unnið í samstarfi við UNICEF á Íslandi.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs og Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra voru viðstödd málþingið og ávörpuðu gesti.
Meðal þess sem fram kom hjá þeim sem tóku þátt í umræðum var ósk um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu, ákall til foreldra um að fylgjast vel með samfélagsmiðlanotkun barna sinna, og gagnrýn hugsun barna gagnvart efni á samfélagsmiðlum verði styrkt.
Þá ræddu þátttakendur nauðsyn þess að hvetja börn til lesturs og að framboð bóka og afþreyingarefnis á íslensku verði aukið. Þau sögðu ánægjulegt að opnunartími félagsmiðstöðva yrði aukinn með áherslu á miðstigið en bentu jafnframt á að gera þyrfti sýnilegra hinsegin starf félagsmiðstöðva. Þá þyrfti að gera umhverfi í skólum fyrir hinsegin börn öruggara.
Á málþinginu var frumsýnt nýtt myndband um Kópavog sem barnvænt sveitarfélag. Kópavogsbær hefur innleitt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og fékk viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag frá UNICEF árið 2021 sem var endurnýjuð árið 2024.
Fullt hús var á málþinginu sem var öllum opið. Á meðal gesta voru börn úr leik- og grunnskólum, foreldrar, bæjarfulltrúar, starfsfólk og aðrir gestir. Við í Álfhólsskóla áttum stóran hóp í salnum en allir ÖSE fulltrúar skólans mættu á þingið og voru sjálfum sér og skólanum til sóma.
