Breytingar hafa orðið á því hvernig tilkynnt er um tjón á spjaldtölvum. Búið er að uppfæra tilkynningarhnappinn sem er hér á heimasíðu skólans.
Ábyrgð á tjóni
Spjaldtölvur sem nemendur nota í grunnskólum Kópavogs eru eign sveitarfélagsins. Nemendur eiga að fara varlega með spjaldtölvurnar og gæta þess að þær verði ekki fyrir tjóni. Spjaldtölvurnar eiga alltaf að vera í hulstri.
Ef óhapp verður og spjaldtölva skemmist, bilar eða týnist er nemandanum úthlutað sambærilegri spjaldtölvu eins fljótt og hægt er svo ekki verði truflun á námi nemandans.
Allir nemendur í 5.-10. bekk hafa nú aðgang að geymslusvæði í Google skýinu til að vista myndir, skjöl og önnur gögn. Kópavogsbær tekur ekki ábyrgð á gögnum sem kunna að vera í spjaldtölvu sem verður fyrir tjóni.
Spjaldtölva skemmist í skóla
Nemandi á tafarlaust að láta umsjónarkennarann sinn vita ef spjaldtölva verður fyrir tjóni eða týnist. Ef umsjónarkennari er ekki nálægur má tala við annan starfsmann skóla, sem sér þá um að láta umsjónarkennara vita. Ef spjaldtölva týnist aðstoðar UT deildarstjóri skólans nemandann við að finna spjaldtölvuna með umsjónarkerfi spjaldtölva.
Umsjónarkennari sendir foreldrum tölvupóst og lætur vita af tjóninu. Kennarinn kemur spjaldtölvunni til UT deildarstjóra skólans sem sér um að nemandinn fái aðra spjaldtölvu.
Spjaldtölva skemmist fyrir utan skóla
Foreldri/forráðamaður lætur umsjónarkennara eða UT deildarstjóra skólans vita ef spjaldtölva verður fyrir tjóni eða týnist.