Viðbragðsáætlun vegna óveðurs

Álfhólsskóli vinnur eftir áætlun SHS og sveitarfélaganna. Stuðst er við viðbúnaðarstig 1 (foreldrar fylgi börnum í skóla) og 2 (skólahald fellur niður). Áríðandi er að foreldrar fylgist með tilkynningum og fari að tilmælum. SHS kappkostar að koma tilkynningum tímanlega á framfæri við fréttastofur útvarpsstöðva (RÚV og Bylgjuna) og helstu fréttamiðla á vefnum (mbl.is og visir.is) og er miðað við að tilkynning berist þeim eigi síðar er 7:30 að morgni sé tekin ákvörðun um viðbúnaðarstig við upphaf skóladags.

Símkerfi skóla eru að öllu jöfnu ekki undir það búin að anna miklu álagi og er foreldrum því bent á að fylgjast með tilkynningum og afla upplýsinga í fjölmiðlum, á heimasíðum skóla og á www.shs.is.

Foreldrar skulu ævinlega leita eftir staðfestum tilkynningum yfirvalda um viðbúnaðarstig en forðast að láta stjórnast af mati nemenda á aðstæðum.

Skólinn er alltaf opinn á óveðursdögum nema tilkynnt sé sérstaklega að svo sé ekki. Skólinn birtir tilkynningar til foreldra á heimasíðu eins fljótt og unnt er og/eða í tölvupósti.

VIÐBÚNAÐARSTIG 1

Röskun á skólastarfi – foreldrar fylgi börnum í skóla.

  • Röskun getur orðið á skólastarfi vegna veðurs ef starfsfólk á erfitt með að komast í skóla. Við þessar aðstæður er engu að síður gert ráð fyrir að skólir séu opnir og taki á móti nemendum.
  • Mjög mikilvægt er foreldrar fylgi yngri börnum til skóla og yfirgefi þau alls ekki fyrr en þau eru í öruggum höndum starfsfólks.
  • Í upphafi skóladags getur verið að mönnun skóla sé takmörkuð. Foreldrar geta þá búist við að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra. Foreldrar eru hvattir til að taka slíkum beiðnum vel.
  • Geisi óveður við lok skóladags er metið hvort óhætt sé að senda börnin heim eða hvort ástæða er til að foreldrar sæki börn sín. Þá eru gefnar út tilkynningar um það, auk þess sem skólinn leggur sig fram um að hafa samband við foreldra.

VIÐBÚNAÐARSTIG 2  

Skólahald fellur niður

Séu aðstæður þannig að óhjákvæmilegt sé að fella skólahald niður um tíma vegna veðurs fá fjölmiðlar tilkynningu um það. Þá skulu foreldrar halda börnum sínum heima þangað til tilkynningar berast um annað.

 

English and other languages