Stefnumótunardagur

Á stefnumótunardegi Álfhólsskóla 15.mars 2019 var foreldrur og nemendum gefið tækifæri til þess að taka þátt í stefnumótun Álfhólsskóla og hafa áhrif á skólstarfið með því að segja sínar skoðanir og koma hugmyndum sínum á framfæri. Að þessu sinni var rætt um innleiðingu heimsmarkmiðanna í Kópavogi.

Nemendur á öllum stigum voru hjá umsjónarkennara þar sem þeir fræddust um og ræddu heimsmarkmiðin.

Á yngsta stigi var þeim svo í kjölfarið skipt upp í minni hópa. Hver hópur vann svo með eitt heimsmarkmið sem og túlkaði það á myndrænan hátt. Nemendur máttu svo gjarnan skrifa slagorð eða einhver lykil orð á spjaldið. Þessi vinna gekk mjög vel og gerðu nemendur mjög fjölbreytt og skemmtileg verkefni. Almennt voru nemendur sammála um að heimsmarkmiðin væru mjög mikilvæg.

Á mið- og unglingastigi ræddu nemendur saman í minni hópum um það hvaða heimsmarkmið þeim fannst mikilvægast að Álfhólsskóli leggi áherslu á, hvers vegna þeim þætti það mikilvægasta markmiðið og komu með hugmyndir að því hvernig mætti innleiða heimsmarkmiðið í skólastarfið. Nemendur voru með mjög ólíkar skoðanir á því hvaða heimsmarkmið þeim þótti mikilvægast, flestir hópar völdu þó heilsu og vellíðan, frið og réttlæti, jafnrétti kynjanna og líf á landi.

Á miðstigi sömdu nemendur í kjölfarið hvetjandi slagorð í tengslum við sitt heimsmarkmið og settu fram á skapandi hátt, t.d. með veggspjaldi, stuttmynd eða lag. Dæmi um slagorð sem komu út úr þessari vinnu eru “Engin sóun, meiri þróun”, “Betri jörð, betra líf”, “Það sökkar að vera svangur” o.fl.

Á unglingastigi unnu nemendur einstaklingslega og teiknuðu mynd af sjálfum sér sem ofurhetju í teiknimyndastíl og skrifuðu í talblöðru hugmyndir þeirra um hvað nemendur geta sjálfir gert til að styðja við heimsmarkmiðin. Dæmi um hugmyndir frá þeim eru t.d. að nýta náttúruauðlindir til að skapa orku, sinna endurvinnslu, taka virkan þátt í hjálparstarfi, draga úr plastnotkun o.fl.

Foreldrar og forráðamenn funduðu í hátíðarsal skólans ásamt stjórnendum, Auði Finnbogadóttur verkefnastjóra stefnumótunar hjá Kópavogsbæ og Sigurlaugu Önnu Jóhannsdóttur verkefnisstjóra innleiðingar heimsmarkmiðanna.. Þær Auður og Sigurlaug Anna hófu fundinn með stuttri fræðslu um heimsmarkmiðin og komandi innleiðingu þeirra. Í kjölfarið var rætt í minni hópum um það hvernig megi innleiða markmiðin varðandi heilsu og vellíðan og menntun fyrir alla. Það var fámennt en góðmennt á fundinum og komu foreldrar og stjórnendur með margar góðar hugmyndir um hvernig megi vinna frekar að þessum markmiðum. Til þess að efla heilsu og vellíðan voru viðstaddir sammála um að efla lífsleiknikennslu, mikilvægi þess að foreldrar séu fyrirmynd um heilbrigðan lífsstíl, draga úr skutli, hafa meiri fjölbreytni og val í íþróttakennslu, efla fræðslu um svefn, heilsu og næringu, leggja áherslu á forvarnir og seiglu, kenna meiri nútvitund, geðrækt og hugleiðslu, fá sálfræðing og fjölskylduráðgjafa í fullt starf inn í skólana, auka samveru með styttingu vinnuvikunnar, tryggja að öll börn hafi jafnan aðgang að tómstundum, bjóða upp á heilsusamlegan mat í mötuneyti o.fl.

Til þess að styðja við menntun fyrir alla voru viðstaddir sammála um mikilvægi þess að auka tengsl skóla við atvinnulíf t.d. með auknu framboði á atvinnutengdu námi, Halda áfram með starfamessurnar og efla þær enn frekar, efla samstarf við framhaldsskólana, bjóða upp á fjölbreyttari list- og verkgreinar og auka val um tæknimenntun, fá sérfræðimenntað starfsfólk inn í skólana, þ.e. menntaða kennara og sérkennara, hlúa vel að mannauði, nýta tæknina til fulls og bjóða upp á ólíkar leiðir til náms, leggja áherslu á fjölbreyttar lestrarkennsluaðferðir, vera með snemmtæk íhlutun vegna náms- og lestrarvanda, gera starfs- og iðnámi hærra til höfuðs, auka vægi lífsleikni og forritunar o.fl.