Mannréttinda- og jafnréttisáætlun

Mennréttinda- og jafnréttisstefna Álfhólsskóla

Álfhólsskóli setur sér mannréttinda- og jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um verndun mannréttinda og mannfrelsis nr.62/1994, lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008 og samkvæmt jafnréttisstefnu Kópavogsbæjar (frá 2010) en þar er markmiðið ,,að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins“.

Jafnréttis- og mannréttindastefna Kópavogs er byggð á jafnræðisreglunni og miðar að því að allir í skólasamfélaginu fái notið mannréttinda án tillits til kyns, uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

Jafnrétti og önnur mannréttindi eru varin í stjórnarskrá Íslands ásamt fjölmörgum mannréttindasáttmálum og yfirlýsingum sem Íslendingar eiga aðild að.

Álfhólsskóli hefur jafnréttis- og mannréttindasjónarmið að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Ávallt er haft í huga að jafna stöðu kynjanna og veita börnum og unglingum hvatningu til að rækta sérkenni sín og jákvæð samskipti milli kynja. Gildi skólans eru þar höfð að leiðarljósi; menntun, sjálfstæði og ánægja.

Markmið jafnréttisstefnu er að tryggja að fyllsta jafnréttis kynjanna sé gætt í hvívetna í skólanum og að bæði nemendur og starfsfólk fái notið sín á eigin forsendum án tillits til kynferðis. Halda skal sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í öllu starfi innan skólans. Markvisst skal unnið að kynjasamþættingu í  stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans. Kynbundin mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist og skal vinna á virkan hátt gegn slíkri mismunun. Kynbundið ofbeldi eða áreitni er ekki liðin. Með jafnréttisstefnu skólans er unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og að vinna gegn neikvæðum staðalímyndum.

Áætlunin nær annars vegar til starfsfólks og hins vegar til nemenda.

Starfsfólk Álfhólsskóla

 • Gæta þarf þess að störf innan skólans séu aldrei flokkuð sem sérstök kvenna- eða karlastörf.
 • Hafa skal bæði kynin í huga þegar störf eru auglýst og leitast við að halda hlutfalli kynjanna eins jöfnu og frekast er unnt. Gæta skal jafnréttissjónarmiða til jafns á við önnur sjónarmið við ráðningar í skólanum. Konur og karlar skulu hafa jafna möguleika á starfsframa innan skólans. Gæta skal jafnréttissjónarmiða við skiptingu verkefna og deilingu ábyrgðar meðal starfsmanna.

Ábyrgð: Stjórnendur
Hvenær: Í hvert sinn sem ráðningar eiga sér stað.

 • Leita skal leiða til að bjóða starfsfólki upp á fræðslu og endurmenntun um jafnréttismál og kynferðislega áreitni.
 • Starfsfólki skulu tryggðir möguleikar til endurmenntunar og starfsþróunar, óháð kyni. Skólinn haldi námskeið fyrir kennara þar sem fjallað er um jafnrétti kynjanna og sérstaklega um jafnréttismiðaða kennslu.
 • Ábyrgð: Stjórnendur

Hvenær: Reglulega

 • Tryggja skal að konur og karlar njóti sömu kjara fyrir sömu störf og hafi jafna möguleika á launuðum viðbótarstörfum innan skólans.
 • Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og skulu viðmið við ákvörðun launa vera skýr og öllum ljós. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Vinna skal gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns í skólanum.
 • Stjórnendur gera athugun á launakjörum starfsmanna að minnsta kosti tvisvar á skólaárinu og bregðast við ef ástæða þykir.

Ábyrgð: Stjórnendur
Hvenær: Við lok vorannar og byrjun haustannar

 • Tryggja skal sama sveigjanleika gagnvart báðum kynjum þegar kemur að samræmingu fjölskyldu- og heimilislífs eða töku fæðingarorlofs og veikindadaga vegna barna.

Ábyrgð: Stjórnendur
Hvenær: Reglulega og við upphaf skólaárs hverju sinni

 • Öllu starfsfólki skal gert ljóst að einelti og kynferðisleg áreitni í hvaða formi sem hún er verði aldrei liðin í skólanum. Bregðast þarf skjótt við komi upp ábending um slíkt.
 • Allir starfsmenn og nemendur eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki einelti, kynferðislegri né kynbundinni áreitni.

Ábyrgð: Stjórnendur og trúnaðarmenn
Hvenær: Reglulega

 • Vinnureglum um viðbrögð við kynferðislegri áreitni hvort heldur sem er meðal starfsmanna eða nemenda má finna í starfsmannahandbók skólans.

Nemendur Álfhólsskóla

Álfhólsskóli leggur áherslu á jöfn tækifæri kynjanna til alls sem viðkemur skólastarfinu, hvort sem um nám eða félagsstarf er að ræða. Lög er áhersla á að nemendum sé ávallt sýnd virðing í samskiptum og þeir metnir að verðleikum þannig að hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín.  Kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum.

 • Starfsfólki skólans ber að vera vakandi fyrir hverju því tækifæri sem gefst til að ræða við nemendur um mannréttindi, jafnrétti kynjanna, staðalímyndir, fordóma, samskipti, ólíkar þarfir einstaklinga og kynjahlutföll í starfsgreinum og áhugasviðum.
 • Leita skal allra leiða til að efla sjálfsvirðingu og sjálfsvitund nemenda með það að markmiði að styrkja hvern einstakling í að velja út frá eigin sannfæringu en ekki út frá viðhorfum hóps eða staðalímyndum.
 • Lögð er áhersla á að allir nemendur þjálfist í að þekkja og tjá tilfinningar sínar og læri um leið að virða tilfinningar annarra óháð kyni, uppruna, búsetu, trú eða fötlun.
 • Leggja skal áherslu á að strákar og stelpur hljóti fræðslu, ráðgjöf og hvatningu í tengslum við ólík menntunartækifæri og ólík störf óháð kyni.
 • Kennurum ber að skilgreina vel þarfir nemenda sinna og leita leiða til að haga kennsluháttum þannig að komið sé til móts við ólíkar þarfir þeirra, áhugasvið og forsendur. Jafnframt skulu nemendur hafðir með í ráðum um hvernig skapa megi þau námsskilyrði sem til þarf svo öllum líði vel, óháð kyni eða öðrum þáttum.
 • Þess skal gætt að námsefni mismuni ekki kynjum og endurspegli margbreytileika samfélagsins.
 • Í náms- og starfsfræðslu verði lögð áhersla á að kynna báðum kynjum störf sem hingað til hafa verið álitin hefðbundin kvenna- eða karlastörf og að bæði kynin séu búin jafnt undir ábyrgð og skyldur einkalífs og fjölskyldulífs, félagslífs og atvinnulífs. Í þeirri fræðslu skal leggja áherslu á styrkleika, skyldur og réttindi beggja kynja. Náms- og starfsfræðsla í skólanum er ávallt samkvæmt jafnréttissjónarmiðum.
 • Sjálfsstyrking verði sjálfsagður hluti náms á öllum skólastigum. Börnum og unglingum sé veitt hvatning til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án hamlandi áhrifa hefðbundinna kynja- og staðalímynda.
 • Styrkja skal jákvæð samskipti og gagnkvæma virðingu kynjanna í öllu starfi og vinna gegn skaðlegum áhrifum klámvæðingar meðal unglinga.
 • Tekið sé mið af þörfum barna fólks af erlendum uppruna og veita þeim sérstakan stuðning og íslenskukennslu til þess að þau fái notið í skólanum til jafns á við önnur börn.
 • Fjölbreytni og margbreytileika samfélagsins sé haldið á lofti í starfi með nemendum og þeim gefið tækifæri til að kynna heimamenningu sína og móðurmál.
 • Mikilvægt er að ekki sé gengið út frá því að allir aðhyllist sömu trú þó að hefðbundnar trúarhátíðir lútersku kirkjunnar séu haldnar hátíðlegar.
 • Starfsfólk skal ávallt vera meðvitað um hlutverk sitt sem fyrirmyndir allra nemenda skólans þegar kemur að mannréttinda- og jafnréttismálum sem og öðrum málum og gæta þess í öllum samskiptum sínum við nemendur að mismuna þeim aldrei eftir kyni frekar en öðru.
 • Standa fyrir og leiða umræðu með nemendum um mannréttindi.
 • Standa fyrir umræðu með nemendum um kynferðislegt ofbeldi og áreitni í forvarnarskyni eða óska eftir aðila til að gera það.

Ábyrgð: Stjórnendur, kennarar, námsráðgjafar og umsjónarmenn félagsstarfs (Pegasus)
Hvenær: Jafnt og þétt yfir skólaárið og þegar ákveðnir viðburðir/þemadagar eru á dagskrá í skólastarfinu.

Samstarf við heimilin

 • Leggja skal áherslu á að taka reglulega upp umræðu um mannréttindi, jafnréttismál og jafnréttisáætlun skólans í foreldraráði.
 • Hvetja skal foreldra af báðum kynjum til að koma í heimsókn í skólann.
 • Hvetja skal foreldra af báðum kynjum til að taka virkan þátt í skólagöngu barna sinna, þátttöku í viðburðum á vegum skólans og starfi innan foreldrafélagsins.

Ábyrgð: Stjórnendur, kennarar,
Hvenær: Við upphaf skólaárs.

 

Mannréttinda- og jafnréttisstefnu þessa skal taka til umræðu og endurskoðunar meðal starfsfólks árlega.