Mannréttinda- og jafnréttisáætlun

Mannréttinda- og jafnréttisáætlun Álfhólsskóla má finna hér.

Álfhólsskóli setur sér mannréttinda- og jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um verndun mannréttinda og mannfrelsis nr.62/1994, lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008 og samkvæmt gildandi jafnréttisstefnu Kópavogsbæjar (2019-2023) en þar er markmiðið að hafa jafnræði bæjarbúa og mannréttindi að leiðarljósi í öllu starfi og hefur Kópavogsbær einsett sér að vera í fararbroddi í mannréttindamálum með sérstakri áherslu á jafna stöðu kynjanna.

Jafnréttis- og mannréttindastefna Kópavogs er byggð á jafnræðisreglunni og miðar að því að allir í skólasamfélaginu fái notið mannréttinda án tillits til kyns, uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

Jafnrétti og önnur mannréttindi eru varin í stjórnarskrá Íslands ásamt fjölmörgum mannréttindasáttmálum og yfirlýsingum sem Íslendingar eiga aðild að.

Álfhólsskóli hefur jafnréttis- og mannréttinda sjónarmið að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Ávallt er haft í huga að jafna stöðu kynjanna og veita börnum og unglingum hvatningu til að rækta sérkenni sín og jákvæð samskipti milli kynja. Gildi skólans eru þar höfð að leiðarljósi; menntun, sjálfstæði og ánægja.

Markmið jafnréttisstefnu er að tryggja að fyllsta jafnréttis sé gætt í hvívetna í skólanum og að bæði nemendur og starfsfólk fái notið sín á eigin forsendum. Halda skal sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í öllu starfi innan skólans. Markvisst skal unnið að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans. Kynbundin mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist og skal vinna á virkan hátt gegn slíkri mismunun. Kynbundið ofbeldi eða áreitni er ekki liðin. Með jafnréttisstefnu skólans er unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og að vinna gegn neikvæðum staðalímyndum.

Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna 
Í september 2015 samþykktu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna: Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna  (HM). Markmiðin gilda frá 2016 til 2030. Um er að ræða ein víðtækustu markmið sem samningsaðilar  hafa komið sér saman um að hafa að leiðarljósi til að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim  fyrir árið 2030.

Ísland er eitt þeirra ríkja sem samþykkt hafa Heimsmarkmiðin en þau koma í framhaldi af  þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem náðu fram til ársins 2015. Heimsmarkmiðin byggja á 17  meginmarkmiðum og 169 undirmarkmiðum. Markmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi  milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra. Þann 11. september 2018 samþykkti bæjarstjórn Kópavogsbæjar að innleiða 17 Heimsmarkmið  Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun inn í yfirstefnu Kópavogsbæjar þar sem 34 af 169  undirmarkmiðum voru valin sem forgangsmarkmið. Mannréttinda- og jafnréttisáætlun Álfhólsskóla tekur mið af þessu.

Mannréttinda og jafnréttisáætlun Álfhólsskóla  nær annars vegar til starfsfólks og hins vegar til nemenda.