Mat á skólastarfi

Rökin fyrir því að meta skólastarf er einkum af tvennum toga. Annars vegar er um að ræða utanaðkomandi hvata sem birtast í lögum og fyrirmælum stjórnvalda og hins vegar eru það innri hvatar, þ.e. löngun og þarfir starfsfólks, stjórnenda, foreldra og nemenda skólans til að gera gott skólastarf betra. Í leiðbeiningum um innra mat (Sigurlína Davíðsdóttir o.fl., 2011, bls. 7) sem teknar voru saman af frumkvæði íslenska matsfræðifélagsins kemur fram að tilgangur innra mats skóla sé tvenns konar. Í fyrsta lagi er horft til þess að þeim fjármunum sem settir eru í skólastarfið sé vel varið en auk þess gegnir matið því hlutverki að styðja við innviði starfsins og aðstoða starfsfólk við að gera það betra. Tilgangurinn er, eins og fram kom í inngangi, að leggja grunn að sívirku umbótastarfi í skólanum og greina þarfir hans fyrir breytingar og umbætur með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Skólastarf snýst fyrst og fremst að nemendum og fjölbreyttum árangri þeirra. Þess vegna er mjög mikilvægt að huga að öllum þáttum sem hafa áhrif á námsárangur.

Samkvæmt lögum um grunnskóla (91/2008) ber hverjum skóla að meta starfið með kerfisbundnum hætti, í 36. grein stendur:

  • Hver grunnskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli 35. gr. með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á.
  • Grunnskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.

Samkvæmt 35. grein er markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda,
  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla,
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
  • tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

Í Álfhólsskóla er skólaþróun daglegur hluti af skólastarfinu og til þess að hún geti orðið markviss er nauðsynlegt að meta starfið með formlegum og reglubundnum hætti.

Haustið 2017 setti matsteymi fram matsáætlun til ársins 2020. Samkvæmt matsáætlun eru matsþættir innan eftirtaldra viðfangsefna:

  • Fagleg forysta
  • Stefnumótun og skipulag
  • Samskipti heimilis og skóla
  • Nám og kennsla
  • Nemendur, þátttaka, líðan og ábyrgð
  • Mannauður, líðan og starfsandi

Það er ekki einungis horft til innra mats einnig er horft til ytra mats skólans. Skólinn nýtir kannanir sem gerðar eru af utanaðkomandi aðilum til að greina stöðu og þarfir innan skólans og er það mikilvæg viðbót við innra matið. Til að meta ofangreinda þætti er því stuðst við ýmis gögn, t.d. niðurstöður frá Skólapúlsinum, kannanir á vegum teymisins Saman í sátt, stefnumótunardaga, skólaþing, samræmd próf, LOGOS greiningar, rafrænar starfsmannakannanir á vegum matsteymis, mat stjórnenda á kennslu (sjá gátlista í viðauka 2), frammistöðumat á Mentor, rýnihópa starfsmanna og nemenda o.fl

Matsteymi

Í matsteymi Álfhólsskóla sitja 6 fulltrúar, skólastjóri auk fulltrúa annarra stjórnenda, kennara, starfsmanna, nemenda og foreldra. Upplýsingar um fulltrúa í matsteymi er að finna á vefsíðu skólans. Forsenda fyrir setu í matsteymi er að fulltrúar hafi áhuga á mati og sjái tilgang með því. Matsteymið þarf að koma sér saman um  teymisstjóra, sem er einn af þessum sex fulltrúum. Fulltrúar í teyminu sitja í þrjú ár í senn. Lögð er áhersla á að ekki hætti allir í einu heldur sé tveimur fulltrúum skipt út árlega. Starfsmaður á bókasafni aðstoðar við innra mat, fyrst og fremst með því að sjá um fyrirlögn nemendakönnunar Skólapúlsins.

Það er í verkahring teymisins að setja niður sjálfsmatsáætlun skólans. Einnig að fylgja eftir að farið sé eftir lögum og reglugerðum varðandi mat á skólastarfi. Teymið leggur áætlunina fyrir skólaráð þar sem sitja fulltrúar foreldra, nemenda og grenndarsamfélagsins og geta þeir gert athugasemdir við matsþætti og framkvæmd og eða komið með tillögur að nýjum matsþáttum.

Gert er ráð fyrir að á hverju ári verði gerð matsskýrsla fyrir skólaárið og í framhaldi af matsskýrslunum verði útbúin starfsþróunaráætlun árlega sem miðar að því að styðja við umbótaáætlunina. Þannig byggjum við upp frekari þróun skólastarfs og símenntun starfsmanna.