Skólinn

Um Álfhólsskóla

Álfhólsskóli var stofnaður árið 2010 með samruna tveggja skóla, Digranesskóla og Hjallaskóla. Álfhólsskóli er heilstæður grunnskóli með nemendur í 1. – 10. bekk. Innan skólans er stórt alþjóðanámsver og sérdeild fyrir einhverfa nemendur. Skólinn er starfræktur í tveimur húsum, Digranesi Álfhólsvegi 100 og Hjalla Álfhólsvegi 120.
Yngsta stig, 1. – 4. bekkur, og dægradvöl skólans er í skólahúsinu í Digranesi en miðstig, 5. – 7. bekkur, ásamt unglingastigi, 8. – 10. bekk eru í Hjalla. Starfsemi alþjóðanámsvers og einhverfudeildar er einnig tvískipt og sérstakar deildir í báðum húsum.
Íþróttir eru kenndar í Íþróttahúsinu Digranesi en sund í Sundlaug Kópavogs.

Forsagan

Digranesskóli var stofnaður 1964.  Hann var á horni Skálaheiðar og Álflhólsvegar.  Fram til 1983 var skólinn barnaskóli með 12 ára nemendur og yngri en eftir það  heildstæður grunnskóli og frá haustinu 1985 voru allir 10 árgangar skólans undir sama þaki. Frá hausti 1997 var skólinn einsetinn.  Í skólanum voru þegar mest var rúmlega 500 nemendur. Skólinn var byggður í nokkrum áföngum.  Hinn seinni ár reyndist upphaflegt húsnæði, 8 kennslustofur, ónýtt og var sá hluti skólahússins rifinn.

Árið 1990 hóf sérdeild fyrir einhverf börn starfsemi sína í skólanum.

Jón H. Guðmundsson var fyrsti skólastjóri Digranesskóla frá árinu 1964 og til starfsloka 1981.  Við tók Stella Guðmundsdóttir sem stjórnaði skólanum í tvö ár þar til hún tók við nýjum skóla, Hjallaskóla.  Ástæða þess var sú að Víghólaskóli , sem var unglingaskóli, hafið verið lagður niður til að rýma fyrir Menntaskólanum í Kópavogi og á þessum tíma var það stefna skólayfirvalda að byggja upp svokallaða tveggja hliðstæðu skóla með tveimur bekkjardeildum í árgangi sem einnig voru heildstæðir frá 1. bekk upp í 10. bekk.  Við þá breytingu tók Sveinn Jóhannesson, fyrrum skólastjóri Víghólaskóla, við stjórn Digranesskóla.  Við þetta tilefni var Hjallskóli settur á stofn og tók Stella við honum.  Þau Stella og Sveinn störfuðu svo bæði í sínum skólanum hvort á Digraneshálsinum til starfsloka beggja árið 2001.  Við Digranesskóla tók þá Helgi Halldórsson.  Hann starfaði í skólanum til 2006 þegar hann tók við Hörðuvallaskóla.  Við tók Magnea Einarsdóttir og stýrði skólanum til þess er hann var sameinaður Hjallaskóla í Álfhólsskóla.

Hjallaskóli var við Álfhólsveg 120 í Kópavogi. Hann var stofnaður árið 1983 og tók þá til starfa í lausum kennslustofum. Nemendur voru þá um 160 á aldrinum 6 – 9 ára.  Fyrsti áfangi skólabyggingar Hjallaskóla var tekinn í notkun haustið 1984 lauk síðasta áfanga þeirrar byggingar haustið 1995. Hafist var handa við stækkun skólans vorið 2004 og var sú viðbygging tekin í notkun haustið 2005. Hýsir hún mataraðstöðu nemenda, tónmenntastofu, skólastofur, félagsaðstöðu og samkomusal skólans, búinn sviði og tækjabúnaði til sýningarhalds. Nemendur Hjallaskóla deildu íþrótta og sundaðstöðu með nemendum Digranesskóla í Digranesi og í Sundlaug Kópavogs. Skólinn hafði frumkvæði að stofnun frístundaheimilis 1987 fyrir börn skólans eftir að daglegri kennslu lauk, svonefndrar Frístundar.  Sem fyrr getur var Stella Guðmundsdóttir fyrsti skólastjóri skólans og starfaði við hann til 2001.  Þá tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir við til 2002 en þá varð Sigrún Bjarnadóttir skólastjóri þar til skólinn var sameinaður Álfhólsskóla.

Móttökudeild nýbúa tók til starfa við skólann 1999.

Álfhólsskóli tók til starfa vorið 2010 við sameiningu Hjallaskóla og Digranesskóla. Hann er með tvær starfsstöðvar.  Yngri deild í Digranesi og eldri deild í Hjalla.  Fjölmennastur var hann fyrstu þrjú starfsárin.  Þá voru í kring um 730 nemendur í skólanum og var hann stærsti grunnskóli landsins. Nú eru í skólanum í kringum 640 nemendur.  Í skólanum eru alþjóðver og sérdeild einhverfra.  Jafnframt er fjölmennt frístundastarf við skólann.  Frístundarheimilið Álfhóll er starfrækt í Digranesi og félagsmiðstöðin Pegasus í Hjalla.  Magnea Einarsdóttir og Sigrún Bjarnadóttir fóru saman með stjórn skólans fyrsta árið en þá flutti Magnea sig um set og tók við stjórn Snælandsskóla. Núverandi skólastjóri er Sigrún Bjarnadóttir.