Eftirfylgd við heimalestur

Heimalestur

Nemendur í 1.-7.bekk í Álfhólsskóla lesa heima upphátt fimm sinnum í viku, 15 mínútur í senn. Foreldrar kvitta fyrir heimalestur í kvittanahefti. Nemendur á yngri stigum þurfa reglulega endurgjöf og hvatningu (límmiða eða stimpla). Áríðandi er að fylgja eftir lestrarþjálfun og gefa þeim nemendum sem á þurfa að halda tækifæri til að þjálfa lesturinn í skólanum. Þetta á við yngri og eldri nemendur. Á unglingastigi lesa nemendur heima fimm sinnum í viku og skila a.m.k. tveimur lestrarmyndböndum á viku.

Mikilvægt er að börn og unglingar haldi áfram að lesa eftir að lágmarksfærni er náð og er það í raun forsenda þess að þau ráði við sífellt erfiðara lesefni og flóknari orðaforða. Gott er að ræða saman um textann til að ganga úr skugga um að nemandinn skilji lesefnið. Afar áríðandi er að gera lestrarstundina að jákvæðri upplifun og leiðrétta börn af nærgætni.

Góð ráð við lestrarþjálfun

  • Sýnið lestrinum áhuga og hrósið þegar við á.
  • Lestrarstundin á að vera jákvæð upplifun.
  • Leiðréttið af nærgætni.
  • Ef barnið les orð rangt, bentu á viðkomandi orð og lestu það rétt svo barnið heyri réttan framburð orðsins. Ekki láta barnið tafsa lengi á erfiðu orði. Láttu barnið lesa rangt lesna orðið aftur og lesa aftur alla setninguna.
  • Takið hlé ef barnið þreytist.
  • Gott er að skiptast á ef textinn reynist erfiður.
  • Leggið áherslu á að barnið læri hljóð bókstafanna.
  • Hjálpið barninu að tengja saman hljóð svo úr verði orð. Ritun er öflug leið til að þjálfa næmi fyrir tengslum bókstafa og hljóða og örva hljóðkerfisvitund.
  • Hvetjið barnið til að lesa í fríum.
  • Gætið þess að þyngd textans hæfi lestrargetu barnsins.
  • Spjallið um innihald textans, orð, hugtök og orðasambönd.

Eftirfylgni við heimalestur

Í skóla þarf að vera góð eftirfylgni við heimalestur nemenda. Heimili og skóli geta gert samkomulag um stuðning við heimalestur í sérstökum tilfellum ef þörf krefur. Umsjónarkennari ber ábyrgð á að koma á slíku samkomulagi í samvinnu við heimilin og deildarstjóra.

Ef ítrekaður misbrestur er á iðkun og/eða skráningu heimalesturs, kvittanir eða lestrarmyndbönd, er ferlið eftirfarandi:

  1. Kennari skráir meldingu á Mentor þess efnis að heimalestri hafi ekki verið sinnt.
  2. Ef heimalestur er ábótavant tvær vikur í röð sendir kennari tölvupóst til foreldra/forráðamanna.
  3. Ef litlar breytingar verða á tveimur vikum til viðbótar hringir kennari heim.
  4. Ef ofangreindar aðgerðir bera ekki árangur eru foreldrar/forráðamenn boðaðir á fund með kennara og stjórnanda.
  5. Beri sá fundur ekki árangur er málinu vísað til nemendaverndarráðs.