Sumarlestur

Rannsóknir sýna að sumarfrí nemenda hefur í för með sér ákveðna afturför í lestri þegar hæfninni er ekki viðhaldið yfir sumartímann. Þetta eru svokölluð sumarhrif. Yngstu lesararnir og þeir sem eiga í lestrarerfiðleikum eru sérstaklega viðkvæmir fyrir sumarhrifum. Á einu skólaári getur afturför endurspeglað allt að þriggja mánaða mun á lestrarfærni milli nemenda og á fyrstu 6 árunum getur því þessi munur endurspeglað allt að eitt og hálft ár af lestrarfærni, einungis af völdum minnkandi lesturs yfir sumarmánuðina.

Það er því afar mikilvægt að viðhalda lestrarfærninni og lesa í sumarfríinu og auðvitað leiðir lestur einnig til margskonar ávinnings fyrir nemandann. Sá ávinningur birtist í bættri lestrarfærni, miklum orðaforða, bættum lesskilningi, aukinni færni við ritun og svo lengi mætti telja. Að auki má ekki gleyma bókagaldrinum sem fær lesarann til að gleyma stað og stund og öðlast upplifun og reynslu af fyrirbærum og atburðum sem eru misfjarlægir í tíma og rúmi.

Með þetta í huga viljum við hvetja nemendur og foreldra til lestrardáða í sumar!

Menntamálastofnun býður upp á sumarlestrarátak fyrir nemendur að vanda. Í ár er það Ævintýralestrarkortið fyrir yngri nemendur og Lestrarlandakortið fyrir eldri nemendur. Tilgangur landakortanna er bæði að hvetja nemendur til lestrar og að kynna mismunandi tegundri bóka fyrir börnum og ungmennum. Með þessu móti verður leit að lesefni sem höfðar til hvers og eins auðveldari og líkelgra að áhugi á lestri kvikni eða aukist. Sjá nánar á Læsisvef mms.

Posted in Fréttir.