upandsingnoregur

Nemendur Álfhólsskóla settu upp söngleik í Noregi.

upandsingnoregurÍ vor héldu nemendur úr Álfhólsskóla til Osló í Noregi til að taka þátt í uppsetningu á söngleik. Söngleikurinn var afrakstur tveggja ára vinnu  í Comeniusarverkefninu „ Up and Sing“.
Verkefnið  var unnið með heimsóknum nemenda milli landa, reglulegum fundum með nemendum í sínum heimaskólum og mikilli samvinnu í gegnum netið. Nemendur og  kennarar í frönskum, spænskum og norskum skólum unnu að verkefninu ásamt hópi nemenda úr Álfhólsskóla. Rúna Björk Þorsteinsdóttir og S. Sigríður Bjarnadóttir kennarar í Álfhólsskóla stýrðu verkefninu fyrir þátttökulöndin. Þátttakendur eru allir með ensku sem annað tungumál. Auk þess að þjálfast í ensku og móðurmálinu gaf þátttakan nemendum tækifæri til að kynnast öðrum tungumálum, menningu og sögu hinna þátttöku þjóðanna.
Farið var í fjórar heimsóknir milli landa með mismunandi hópa nemenda sem unnu að söngleiknum. Í fyrstu ferðinni til Segóvía á Spáni var ákveðið þema fyrir söngleikinn. Í næstu ferð þar sem að við vorum gestgjafar var unnið að samtölum og stuttum leikþáttum. Í ferðinni til Thouars í Frakklandi voru samin lög og textar sem notuð voru.
Í lokaheimsókninni í vor var unnið að uppsetningu söngleiksins þar sem að allir þættir voru tengdir saman ásamt stuttmyndum og viðtölum sem unnin höfðu verið í fyrri heimsóknum. Hljómsveit skipuð nemendum, kennurum og tónlistarmönnum æfði og spilaði tónlistina, danshópur æfði þjóðdansa og nútímadansa , kór skipaður þátttakendum æfði sönglög og leikhópur æfði hlutverkin. Þess má geta að mikil aðstoð kom frá  leikstjórum , danshöfundum og tónlistarfólki í skólasamfélaginu. Eftir strangar æfingar í nokkra daga var frumsýning og voru boðsgestir vel á annað hundrað og mættu meðal annarra starfsmenn og ambassadorar frá sendiráðum þátttökulandanna.

Sýningin heppnaðist mjög vel og nemendur og kennarar voru sáttir og glaðir með afrakstur verkefnisins.

Alls 17 nemendur ásamt kennurum og skólastjóra tóku þátt í verkefninu. Nemendur stóðu sig frábærlega og segja má að verkefnið hafi verið mjög gefandi og þroskandi fyrir alla þátttakendur.

Posted in Up and Sing.